Gríðarleg eyðilegging í Nepal

Jarðskjálfti mældist 7,9 stig - Byggingar rústir einar - 1.130 látnir.

Jarðskjálfti upp á 7,9 stig reið yfir Nepal nú fyrir skemmstu. Upptök skjálftans eru sögð hafa verið á milli höfuðborgarinnar Kathmandu og borgarinnar Pokhara í Nepal.

Frá þessu er greint á vef BBC.

Þar segir að fólk hafi víða fundið fyrir skjálftanum og meðal annars fundu íbúar í indversku höfuðborginni Delhi fyrir honum.

Fréttir eru að berast frá Nepal en BBC segir að þónokkrar byggingar hafi hrunið í Kathmandu, þar á meðal stór hof í borginni sem séu nú rústir einar.

Óttast er að mikið manntjón hafi orðið. Ekki hafa verið gefnar út upplýsingar um slys á fólki en fréttaveita Reuters segir að tveir hafi fundist látnir, einn í Nepal og einn í Indlandi.

UPPFÆRT 16:15
Yfirvöld hafa staðfest að 1.130 manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum sem gekk yfir Nepal í morgun. Óttast er að þær tölur hækki enda ríkir mikil ringulreið í landinu. Jarðskjálftinn átti upptök sín ofarlega í jarðskorpunni sem jók eyðileggingarmátt hans.

UPPFÆRT: 14:05:

Talið er að minnsta kosti 876 manns hafi látið lífið eftir jarðskjálftan í morgun. Þetta segja talsmenn lögreglunnar í Nepal við BBC. Þá hefur verið tilkynnt um meira en 1700 manns sem slösuðust.

UPPFÆRT: 13:00:

Myndir frá eyðileggingunni í Nepal eru í stöðugum straumi að birtast á samfélagsmiðlum. Ljóst er að tjónið af völdum jarðskjálftans, sem sá öflugasti í landinu í 80 ár, er gríðarlegt.

UPPFÆRT: 12:40:

Nýjustu fréttir frá Nepal segja að 700 manns hafi fundist látnir eftir að jarðskjálftinn reið yfir landið í morgun.

Eins og greint hefur verið frá fórust átta manns á Everest í morgun.

Þá hafa 35 látið lífið í Indlandi og fimm í Kína eftir skjálftann samkvæmt frétt BBC. Mikill fjöldi fólks er auk þess illa slasað

UPPFÆRT: 11:20:

Samkvæmt upplýsingum frá lögregluyfirvöldum er nú talið að hátt í 500 manns hafi látist í jarðskjálftanum, sem er sá harðasti sem orðið hefur í Nepal í áttatíu ár. Óttast er að tala látinn eigi enn eftir að hækka.
UPPFÆRT: 09:00:

Jarðskjálftinn í Nepal í morgun hefur valdið gríðarlegri eyðileggingu í landinu. Þrír eru staðfestir látnir og björgunaraðgerðir eru víða í gangi.

Fimmtíu manns voru inni í turni sem hrundi. Þegar hafa nokkur lík náðst út úr turninum. Norskur fjölmiðlamaður sem staddur er nálægt Everest fjalli segir ástandið glundroðakennt og lýsir jarðskjálftanum sem gríðarlega öflugum. Þetta kemur fram í samtali hans við norska netmiðilinn Verdens Gang vg.no

.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.