Höfða mál gegn ríkinu vegna staðgöngumæðrunar: Fá ekki að vera skráðar mæður barnanna

Íslenskt faðerni hefur verið staðfest en mömmurnar, sem eru bandarískar, fá ekki að skrá sig

Hjón sem komu með tvíbura til Íslands í maí 2014, sem þau höfðu eignast með aðstoð staðgöngumóður í Bandaríkjunum, hafa höfðað mál gegn íslenska ríkinu og þjóðskrá til að fá stöðu sína viðurkennda. Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV. þar sem fram kom að þetta er fyrsta mál af þessu tagi sem höfðað er hér á landi.

Önnur hjón, sem einnig eignuðust tvíbura í Bandaríkjunum, eru með sambærilegt mál í undirbúningi samkvæmt RÚV, en börnin eru að verða sex ára gömul. Staðgöngumæðrun er ólögleg hér á landi.

Í fréttinni kemur fram að í báðum tilvikum er konunum, sem eru bandarískar, neitað um viðurkenningu á því að þær séu mæður barnanna í lagalegum skilning. Faðerni hefur verið staðfest í báðum tilfellum. Mennirnir eru báðir íslenskir.

Tvisvar hefur fólk reynt að leyna því að barn, sem þau komu með til landsins, hefðu verið getin af staðgöngumæðrum. Þetta kemur fram í [Reykjavík vikublaði](http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2015/02/Reykjavik-05-2015-0702.pdf. Þar er vitnað í umsögn Útlendingastofnunnar um frumvarp um staðgöngumæðrun sem liggur fyrri á Alþingi.

Hér má lesa umfjöllun DV um staðgöngumæðrunarfrumvarp í velgjörðarskyni sem heilbrigðisráðuneytið hefur látið vinna. Þar kemur meðal annars fram að þó staðgöngumæðrun hafi ekki verið heimil á Íslandi hingað til en hefur hún hins vegar verið leyfð í mörgum öðrum Vesturlöndum, til að mynda í Bretlandi, Hollandi og Belgíu. Sú gerð staðgöngumæðrunar sem er heimiluð er hins vegar eingöngu staðgöngumæðrun án hagnaðarsjónarmiða.

Ef Íslendingar heimla staðgöngumæðrun verður landið aftur á móti hið fyrsta af Norðurlöndunum til að taka þetta skref. Finnar gengu raunar svo langt árið 2007 að banna staðgöngumæðrun með lagasetningu en staðgöngumæður höfðu þá alið börn fyrir aðra í einhverjum tilvikum án þess að slíkt væri heimilað. Um þetta fjallar Helga Finnsdóttir í nýlegri mastersritgerð sinni í mannfræði við Háskóla Íslands.

Hingað til hafa þeir Íslendingar sem nýtt hafa sér staðgöngumæðrun þurft að fara til annarra landa eftir henni. Þar er þá um að ræða staðgöngumæðrun þar sem greitt er fyrir þjónustu konunnar sem gengur með barnið. Sagðar hafa verið af því fréttir hér á landi að Íslendingar hafi bæði leitað til Indlands og Bandaríkjanna eftir slíkri þjónustu og greitt fyrir hana, allt frá nokkrum milljónum króna og upp í 20 milljónir. Samkvæmt frumvarpinu verða slík viðskipti Íslendinga erlendis hins vegar bönnuð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.