Lítið gas mælst í byggð undanfarið

Tuttugu sjálfvirkar gasmælistöðvar í byggð sýna litla gasmengun

Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna í Holuhrauni síðustu daga vegna veðurs.
Eldgosið í Holuhrauni Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna í Holuhrauni síðustu daga vegna veðurs.
Mynd: Ármann Höskuldsson

Lítið gas hefur mælst á sjálfvirkum gasmælistöðvum í byggð það sem af er febrúarmánuði og hefur enginn af þeim tuttugu mælum farið yfir heilsuverndarmörkin 350 µg/m³ síðan 5. febrúar. Þetta kemur fram á upplýsingasíðu Veðurstofu Íslands fyrir eldsumbrotin í Bárðarbungu.

„Í dag er nítjándi dagurinn undir heilsuverndarmörkum á þessum stöðvum. Næstlengsta tímabilið með undir 350 µg/m³ á öllum stöðvum frá 20. september 2014 (þegar mælikerfið var komið upp um allt land) er fimm dagar (5. - 9. janúar),“ segir í nýjustu upplýsingum um eldgosið og jarðhræringarnar.

Vísindamannaráð Almannavarna hittist í morgun en fundinn sátu vísindamenn frá Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Umhverfisstofnun og Embætti Sóttvarnarlæknis.

Á fundinum kom meðal annars fram að áfram dregur úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þó enn teljist hún mikil. Þá hefur einnig verulega dregið úr hraunflæði í Holuhrauni og þá er sig öskjunnar nú minna en 2 sentimetrar á dag en var tugir sentimetra þegar mest var.

Punktar úr fundargerð Vísindamannaráðs Almannavarna frá því í morgun

 Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna í Holuhrauni síðustu daga vegna veðurs.

 Áfram dregur úr jarðskjálftavirkni í Bárðarbungu þó enn teljist hún mikil. Stærsti skjálftinn frá því á föstudag mældist M3,7 á laugardag, 21. febrúar, kl. 15:20. Tveir aðrir skjálftar mældust stærri en M3,0 á tímabilinu. Alls hafa um 60 skjálftar mælst í Bárðarbungu frá því á föstudag. Tveir djúpir skjálftar mældust um 18 km suðaustur af Bárðarbungu. Sá fyrri þann 20. febrúar kl. 02:50 á um 19 km dýpi og sá síðari þann 21. febrúar kl. 21:55 á um 16 km dýpi. Ekki hefur mælst skjálfti yfir M5,0 að stærð frá 8. janúar.

 Í kvikuganginum hafa mælst um 90 skjálftar frá því á föstudag. Þeir stærstu mældust M1,6 að stærð. Rétt er að taka fram að það er mjög háð veðri hve margir smáskjálftar mælast.

 Sig öskju Bárðarbungu er nú minna en 2 cm á dag. Taka verður tillit til ísskriðs inn að miðju öskjunnar þegar gögn úr GPS tæki eru skoðuð.

** GPS mælingar við Vatnajökul sýna áframhaldandi hægar færslur í átt að Bárðarbungu, í samræmi við að kvika flæði enn undan bungunni.

 Við Tungnafellsjökul voru 2 skjálftar, báðir minni en M2,0 að stærð. Við Öskju og Herðubreið mældust á fjórða tug skjálfta og voru þeir allir minni en M2,0 að stærð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.