Myndböndin sem sýna þróun jarðskjálftanna í Bárðarbungu

Forritarar setja skjálftahrinuna í Vatnajökli fram á aðgengilegan hátt

Úr myndbandi Boga B. Björnssonar
Skjálftar Úr myndbandi Boga B. Björnssonar
Mynd: Veðurstofa Íslands/ Bogi B. Björnsson

Þessa dagana er þjóðin með öndina í hálsinum vegna jarðhræringa í norðanverðum Vatnajökli, en sérfræðingar telja líklegt að skjálftahrinan muni enda með eldgosi. Svæðið norðan við Bárðarbungu og Dyngjujökul hefur verið rýmt og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir hættustigi.

Ítarleg gögn úr skjálftamælum Veðurstofunnar hafa verið birt opinberlega, svo forritarar landsins hafa getað dundað sér við að setja gögnin fram á skapandi hátt fyrir almenning. Hér fyrir neðan má sjá þrjú dæmi um slíka framsetningu.

Íslenska gagnavinnslufyrirtækið Data Market hefur gert myndband sem sýnir stærð, dýpt og staðsetningu skjálftanna undanfarna daga.

.

Þá birti Veðurstofa Íslands í dag þrívíddarframsetningu á staðsetningu, dýpi og aldri jarðskjálftanna undanfarna fjóra daga. Höfundur myndbandsins er Bogi B. Björnsson. „Litur punktanna táknar dagsetningu þeirra þannig að fyrst koma rauðir punktar, næst appelsínugulir, gulir, ljósgrænir og loks grænir en tímabilið sem um ræðir er 16.-20. ágúst 2014. Stærð jarðskjálfta kemur ekki fram en allir skjálftapunktar eru teiknaðir jafn stórir í myndbandinu. Sömu punktar eru sýndir undir yfirborðinu og ofan á yfirborðinu til að átta sig betur á samhengi staðsetningu og dýpis. Dýpi skjálftana er hægt að lesa út frá gráu flötunum á myndbandinu en þeir eru staðsettir á 0 km, 5 km og 10 km dýpi undir sjávarborði,“ segir í upplýsingum sem fylgja myndbandinu.

Forritarinn og hönnuðurinn Aitor García Rey tók þriðja myndbandið saman fyrir Iceland Mag, en það sýnir virknina 17 og 18 ágúst síðastliðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.