Lögreglan auglýsir á Torrent-síðum

Reyna að minnka auglýsingatekjur eigendanna og fæla netverja frá slíkum síðum

Lögreglan telur að þetta komi til með að fæla notendur frá torrentsíðum
Auglýsing lögreglunnar Lögreglan telur að þetta komi til með að fæla notendur frá torrentsíðum

Lögreglan í Lundúnum hefur ákveðið að fara óhefðbundna leið til að aftra fólki frá því að hala niður höfundaréttarvörðu efni í gegn um svokallaðar torrent-síður.

Tilraunin felst í því að á vefsíðum sem hægt er að nálgast slíkt efni birtist viðvörun frá lögreglunni um að þessi tiltekna síða hafi verið tilkynnt til lögreglunnar og biður notandann um að loka glugganum með síðunni.

Þetta er gert til þess að aftra síðum frá því að afla sér tekna gegn um auglýsingar og einnig til þess að gera þær tortryggilegri í augum notenda.

„Þegar auglýsingar frá þekktum fyrirtækjum birtast á ólöglegum vefsíðum, veldur það því að þær virðast vera öruggari og löglegri en þær eru og plata neytendur þannig að þeir haldi að síðan sé lögleg,“ sagði Andy Fyfe, starfsmaður lögreglunnar í Lundúnum, um málið, en hann er yfirmaður deildar sem rannsakar brot á höfundarrétti, PIPCU.

Kerfið virkar þannig að auglýsingaveitan nemur ákveðnar síður og í stað þess að birta auglýsingar á þeim birtast skilaboðin frá lögreglunni. Þetta gerir það að verkum að síðan fær ekki greitt ef notandi smellir á auglýsingaplássið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.