Hættir vegna afskipta Hönnu Birnu af lögreglurannsókn

Ráðherra kallaði Stefán Eiríksson á teppið vegna Lekamálsins - Fékk ógnandi símtöl

Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur unnið embætti sínu virðingu. Hann hverfur nú á braut vegna rannsóknar á Lekamálinu.
Vinsæll embættismaður Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur unnið embætti sínu virðingu. Hann hverfur nú á braut vegna rannsóknar á Lekamálinu.
Mynd: © DV ehf / Guðmundur Vigfússon

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hættir störfum vegna undirliggjandi hótana og ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra af störfum lögreglunnar í tengslum við Lekamálið.

Samkvæmt heimildum DV hefur ráðherrann kallað Stefán á teppið. Hann boðaði lögreglustjórann í ráðuneytið og las honum pistilinn vegna lögreglurannsóknarinnar á innanríkisráðuneytinu. Þar beitti Hanna Birna þrýstingi til þess að hafa áhrif á rannsókn málsins en báðir aðstoðarmenn ráðherra eru með réttarstöðu grunaðs manns.

Einnig mun ráðherrann hafa hringt í Stefán og lýst óánægju sinni með framgöngu lögreglunnar. Afskipti ráðherrans eru af sama toga og þegar hann hafði samband við DV og lýsti reiði sinni vegna fréttaflutnings af lekanum og vildi stöðva umfjöllunina. Lögreglan hefur skilað málinu af sér til ríkissaksóknara sem fer með forræði þess og tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu.

„Ég tel ekki rétt að ríkissaksóknari ræði þetta málefni við fjölmiðla“

Ræddi við ríkissaksóknara

Samstarfsmönnum Stefáns er mjög brugðið vegna þessa máls. Hann mun hafa rætt afskipti ráðherrans við nána samstarfsmenn. Þá mun hann hafa rætt það við ríkissaksóknara áður en hann ákvað að leita fyrir sér um starf annars staðar.

DV hafði samband við Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. „Ég tel ekki rétt að ríkissaksóknari ræði þetta málefni við fjölmiðla,“ segir hún. Sigríður hafnar því hins vegar ekki að Stefán hafi upplýst sig um þrýstinginn sem ráðherra beitti.

Mikils metinn lögreglustjóri

Langur starfsferill innan lögreglunnar tók skjótan enda
Mikils metinn lögreglustjóri

Stefán Eiríksson á að baki langan og farsælan feril innan lögreglunnar en þar áður starfaði hann í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann vann í sendiráði Íslands í Brussel frá 1999 til 2000 og var skipaður skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins árið 2002. Hann var skipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu árið 2006 og hefur notið gríðarlegs trausts innan lögreglunnar. Á hans vakt þykir lögreglan hafa bætt mjög ímynd sína, enda er hún sú stofnun sem almenningur ber mest traust til samkvæmt könnunum ár eftir ár. Stefán var sæmdur fálkaorðunni um síðustu áramót fyrir frumkvæði og forystu á sviði löggæslu. Nú hefur hann kvatt þennan starfsvettvang og snúið sér að velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Það vakti gríðarlega athygli þegar Stefán sótti um starf forstjóra Samgöngustofu og sviðsstjóra velferðarsviðs í Reykjavík. Þá hafði hann komist að þeirri niðurstöðu að honum væri ekki sætt sem undirmaður Hönnu Birnu þar sem reiði hennar gæti bitnað á embættinu.

DV hefur fjallað ítarlega um þetta mál allt frá því minnisblaði um einkamál hælisleitandans Tony Omos var lekið úr ráðuneytinu til 365-miðla og Morgunblaðsins. Minnisblaðið fór frá ráðuneytinu í breyttri mynd þar sem átt hafði verið við það. Upplýst er að Gísl Freyr opnaði skjalið um það leyti sem fyrri lekinn átti sér stað.

Óttaðist ráðherra

Lögreglustjóri mun, samkvæmt heimildum DV, hafa fengið sig fullsaddan af samskiptum sínum við ráðherra og þeim þunga hug sem hann taldi sig finna frá Hönnu Birnu. Hann mun hafa metið stöðuna svo að ráðherrann gæti skaðað lögregluna og þess vegna ákvað hann að víkja.

Stefán þykir vera einstaklega samviskusamur embættismaður. Hann tók við embætti árið 2006 en áður starfaði hann sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, forvera innanríkisráðuneytisins, sem Hanna Birna ­stýrir nú.

Ábyrgð Alþingis

Þingmenn vildu bíða
Ábyrgð Alþingis

Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem DV hefur rætt við undanfarnar vikur hafa kallað eftir því að beðið sé eftir niðurstöðu rannsóknarinnar á lekamálinu. Fram að þessu hafa þeir treyst Hönnu Birnu til að skipta sér ekki af framgangi lögreglurannsóknarinnar. Sem kunnugt er heyrir lögreglan undir innanríkisráðuneytið þótt hún eigi að njóta sjálfstæðis í störfum sínum.

„Eigum við ekki að bíða niðurstöðu í þessu máli?“ sagði Birgir Ármannsson þegar DV ræddi við hann í síðustu viku. Fleiri hafa tekið í sama streng, svo sem Pétur Blöndal, Vilhjálmur Árnason og Elín Hirst. Sömu viðhorfum var lýst í viðtölum sem Reykjavík Vikublað tók við fjölda þingmanna fyrr í mánuðinum. Einnig hafa þingmenn Framsóknarflokksins andmælt hugmyndum um að Hanna Birna stígi til hliðar meðan rannsóknin fer fram. Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, reiddist blaðamanni þegar hún var innt eftir afstöðu sinni. „Mér finnst hafa verið farið algjöru offari í þessu máli af stjórnarandstöðu,“ sagði hún og bætti við: „Ég stend heilshugar með dómsmálaráðherra og búið bless.“

Fyrr í vetur hugðust þingmenn úr stjórnarandstöðu leggja fram vantrauststillögu gegn Hönnu Birnu. Þeir hættu hins vegar við og ákváðu að bíða þar til rannsókn lyki. Ef til vill hafa þeir treyst því að ráðherrann gæfi lögreglunni vinnufrið. Annað kom á daginn líkt og brotthvarf Stefáns Eiríkssonar ber glöggt vitni.

Tjáir sig ekki

Stefán ­hefur störf sem sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í byrjun september. Við starfi hans tekur Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum. Sigríður var ráðin án þess að staðan væri auglýst. Hugsanlega mun Lekamálið koma til hennar kasta ef ríkissaksóknari krefst frekari rannsóknar á því.

Stefán Eiríksson vildi ekki tjá sig um ástæðu starfslokanna. „Ég tjái mig ekki um samskipti við ráðherra,“ segir Stefán í samtali við DV.

Hanna Birna fékkst ekki til að útskýra sína hlið á málinu, en DV hefur ítrekað óskað eftir viðtali við hana. Þá náðist hvorki í Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúa ráðuneytisins né aðstoðarmenn Hönnu Birnu við vinnslu fréttarinnar.

Beitir sér af hörku

Þingmenn, undirmenn og nú lögregla
Beitir sér af hörku

Samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson eru ekki eina dæmi þess að ráðherra reyni að hafa áhrif á framgang lekamálsins. Þegar dómsúrskurðir Hæstaréttar og héraðsdóms vörpuðu nýju ljósi á málið þann 18. júní birti innanríkisráðuneytið tilkynningu á vef sínum þar sem gert var lítið úr málatilbúnaði saksóknara lögreglunnar með því að vísa til þess að „ýmsir starfsmenn ráðuneytisins“ ættu „mörg samtöl við fjölmiðla á hverjum einasta degi.“ Yfirlýsingin var afar óvenjuleg en þar var fullyrt að hælisleitandinn sem kært hafði trúnaðarbrotið til ríkissaksóknara, Evelyn Glory Joseph, væri eftirlýstur. Ráðuneytið þurfti að leiðrétta þetta eftir að lögreglan staðfesti að ummælin stæðust ekki skoðun.

Önnur furðuleg atburðarás fór af stað eftir að Hanna Birna bendlaði Rauða krossinn við lekann í fyrra. Starfsmaður samtakanna benti á það í viðtali við DV að ásakanirnar gætu ekki staðist, en eftir að Hanna Birna hafði heimsótt samtökin sendu þau út sérstaka afsökunarbeiðni til ráðherra. Einn starfsmaður Rauða krossins sem DV ræddi við fullyrti að hræðsla hefði gripið um sig þegar ráðherrann leit við, en á þessum tíma var verið að semja um fjárveitingar ráðuneytisins til Rauða krossins.

Hanna Birna reyndi ítrekað að stöðva umfjöllun DV um Lekamálið. Þá hefur verið greint frá því hvernig ráðherrann skammaði þingkonuna Birgittu Jónsdóttur fyrir að spyrja um lekamálið á Alþingi og reyndi að koma í veg fyrir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gerði slíkt hið sama.

DV hefur einnig fjallað ítarlega um framferði ráðherrans gagnvart undirmönnum sínum í ráðuneytinu en upplýst hefur verið að ráðuneytisstarfsmenn kröfðust þess fljótlega eftir að málið kom upp að fram færi óháð rannsókn utanaðkomandi aðila á lekanum. Hanna Birna hafnaði beiðni þeirra. Fyrr í sumar greindi svo DV frá því að spurt hefði verið um lekamálið á starfsmannafundi í ráðuneytinu. Ráðherra hefði brugðist ókvæða við, kallað eftir samstöðu og sakað starfsmenn um að vera „með fýlusvip“.

Erfið staða fyrir lögregluna

Fannst óþægilegt að rannsaka ráðuneytið
Erfið staða fyrir lögregluna

Fljótlega eftir að ríkissaksóknari vísaði lekamálinu til lögreglurannsóknar þann 7. febrúar vöknuðu spurningar um það hvort Hönnu Birnu bæri að víkja tímabundið sem ráðherra meðan á rannsókn stæði. Lögreglumenn sem DV ræddi við sögðu „óþægilegt“ að málið væri komið inn á þeirra borð. Bent var á að Stefán Eiríksson væri undirmaður ráðherra sem hefði framtíð hans í starfi í hendi sér, þar á meðal hvort hann fengi áframhaldandi skipun í embætti árið 2016.

Það er fordæmalaust í íslenskri stjórnmálasögu að fram fari lögreglurannsókn á verkum innanríkisráðuneytis fyrir tilstuðlan ríkissaksóknara. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur og lektor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, sagði í samtali við DV þann 9. febrúar að eðlilegast væri fyrir ráðherra að víkja á meðan rannsóknin færi fram. „Hún var æðsti yfirmaður ráðuneytisins þegar upplýsingarnar birtust í fjölmiðlum og því er mikilvægt fyrir trúverðugleika rannsóknarinnar og stjórnsýslunnar í heild sinni að hún víki tímabundið […] Ég tel eðlilegt að ráðherra sé ekki á vettvangi á meðan málið er rannsakað. Slík ráðstöfun væri viðeigandi, ekki síst vegna þess að undirmenn ráðherra [lögreglan á höfuðborgarsvæðinu] munu annast rannsóknina,“ sagði Sigurbjörg.

DV ræddi við fjölda lögreglumanna í febrúar. Bentu þeir á að staða rannsóknarinnar væri sérstaklega erfið í ljósi þess að bróðir Hönnu Birnu, Theódór Kristjánsson, væri yfirmaður tæknideildar og tölvurannsókna- og rafeindadeildar. Theódóri var lýst sem mjög valdamiklum innan lögreglunnar og því gæti rannsóknin reynst óbreyttum lögreglumönnum óþægileg. Stefán Eiríksson staðfesti við DV að Theódór kæmi ekki að henni.

Einn af viðmælendum DV sagði að lögreglumenn ræddu það sín á milli hversu óþægilegt væri „að vera með mál til rannsóknar sem snertir á svona mörgum áhrifapunktum.“ Annar starfandi lögreglumaður tók undir þetta: „Mönnum er bara misboðið, það verður að segjast eins og er.“ Heimildir DV innan úr lögreglunni herma að rannsakendur málsins hafi ekki orðið varir við afskipti ráðherrans. Mörgum kom hins vegar á óvart þegar Stefán Eiríksson ákvað að hætta störfum. „Það er alveg ljóst að eitthvað hefur Stefán gert til þess að tapa trausti ráðherrans,“ sagði lögreglumaður sem DV ræddi við um helgina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.