„Þjófur á að missa höndina fyrir þjófnað“

Grýtingar hluti af Gamla Testamentinu að sögn Salmann Tamimi

Salmann Tamimi segir að þjófar eigi að missa höndina ef þeir steli, en einungis í þeim tilfellum þar sem þeir búa í íslömsku samfélagi þar sem þá skortir ekkert.
„Er náttúrulega mín trú“ Salmann Tamimi segir að þjófar eigi að missa höndina ef þeir steli, en einungis í þeim tilfellum þar sem þeir búa í íslömsku samfélagi þar sem þá skortir ekkert.

„Það stendur í Kóraninum: Þjófur á að missa höndina fyrir þjófnað. En skilyrði fyrir því að missa höndina er að samfélagið sé algjörlega íslamískt, þar sem enginn þarf að stela einu eða neinu,“ sagði Salmann Tamimi, hjá Félagi múslima, í viðtali við Ísland í dag í gær.

Salmann var spurður um það hvort honum þætti eðlilegt að Alþingi myndi innleiða löggjöf þess efnis að þjófar ættu að missa höndina sagði Salmann: „Ef öll skilyrði eru sett eins og Kóraninn segir, þá er þetta náttúrulega mín trú. Alveg eins og fyrir morð. Ef þú myrðir einhvern mann viljandi, og fjölskyldan hans fyrirgefur þér ekki, þá áttu að missa lífið líka. Alveg eins í Biblíunni, þar sem stendur: Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn,“ sagði Salmann.

„Það má ekki. Það má ekki.“

Engin vígsla fyrir samkynhneigða

Salmann var spurður út í hjónabönd samkynhneigðra og hvort hann myndi framkvæma slíka hjónavígslu.

„Í íslam er samkynhneigð talin synd alveg eins og í kristinni trú,“ sagði Salmann: „Gifting hjá okkur er öðruvísi hjá okkur en hjá kristnum mönnum. Það er ekki skilyrði að hann komi til mín til að gifta sig. Það eru margir múslimar sem gifta sig án þess að koma í mosku. Múslimar geta fengið tvö vitni og búið. Það þarf enga vígslu, enda er það bara guð sjálfur sem blessar. Þetta er samkomulag á milli tveggja aðila,“ svaraði hann.

Tengt: Ólafur gerðist múslimi: „Allah opnaði hjarta mitt“

Inntur eftir því hvort hann myndi framkvæma athöfn fyrir samkynheigt par í bænahúsinu sagði hann: „Það getum við ekki gert. Þetta er synd. Ef það kemur einhver og segir: „Ég ætla að vera múslimi en ég ætla að vera samkynhneigður.“ Það má ekki. Það má ekki.“

Félag múslima er með bænahús í Ármúla.
Bænahús í Ármúla Félag múslima er með bænahús í Ármúla.

„Alls ekki“

Þá tekur hann fram að það standi hvergi í Kóraninum að það eigi að grýta samkynhneigða. „Alls ekki. Það stendur að það eigi að tala þá til. Þegar verið er að grýta konur og samkynhneigða þá er það allt komið úr Gamla Testamentinu. Ég er alls ekki hrifinn af því. Þetta er ekkert í Kóraninum. Það er bara á einum stað sem það stendur að einhver eigi að missa líf sitt og það er ef þú drepur einhvern viljandi og fjölskylda hins látna fyrirgefur þér ekki.“ 

„Það stendur að það eigi að tala þá til.“

Karlmaðurinn talsmaður fjölskyldunnar

Salmann ræddi enn fremur kynjahlutverkin. „Það hafa allir sitt hlutverk. Fjölskylduna vantar alltaf talsmann. Þegar maðurinn er niðri í bæ að kaupa eða gera viðskipti þá er hann að tala fyrir fjölskylduna. Í raun og veru er móðirin höfuð fjölskyldunnar. Hún er að ala barnið upp, hún stjórnar hvað þú færð að borða. Hún stjórnar hvar þú sefur.“

Þá telur Salmann að þessi hlutverk megi vel breytast. „Það er íþyngjandi fyrir karlmann að sjá um konuna frá A til Ö. Það væri miklu betra ef hún myndi sjá um mig.“ 

„Boðskapur allra þessara stærstu trúarbragða er að vera góður.“

Boðskapurinn „að vera góður“

Salmann segir að íbúar í grennd við mosku sem fyrirhugað er að byggja í Sogamýri muni ekki verða fyrir ónæði vegna bænakalla eða háreysti. „Við erum hér og hér gerum við bænakall. Þú getur spurt nágranna okkar, það heyrist ekkert í okkur. Það verður ekkert hávært bænakall nema þeir vilji fá að hlusta. Þá væri það alveg sjálfsagt.“

Þá kveðst Salmann ekki skilja þá sem séu hræddir við íslam eða múslima. „Er þriðjungur mannkyns bara vitleysingar? Morðingjar? Boðskapur allra þessara stærstu trúarbragða er að vera góður, manneskja við manneskju.“ 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.