Íslensk erfðagreining svarar gagnrýni

„Íslensk erfðagreining hefur á allan hátt fylgt lögum og reglum,“ segir í tilkynningu

Í tilkynningu Íslenskrar Erfðagreiningar segir að fyrirtækið hafi fylgt lögum og reglum varðandi rannsókn fyrirtækisins og yfirstandandi átak
Hafa fylgt lögum og reglum Í tilkynningu Íslenskrar Erfðagreiningar segir að fyrirtækið hafi fylgt lögum og reglum varðandi rannsókn fyrirtækisins og yfirstandandi átak
Mynd: © DV ehf / Sigtryggur Ari

Íslensk erfðagreining hefur sent frá sér svar vegna gagnrýni sem hún hefur orðið fyrir vegna lífsýnasöfnunar sem nú stendur yfir með hjálp Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Þar er því haldið fram að Íslensk erfðagreining hafi á allan hátt fylgt lögum og reglum varðandi rannsókn fyrirtækisins Samanburðarsýni og átaksins Útkall í þágu vísinda.

Vinnubrögðin gagnrýnd

Nokkur umræða hefur verið um rannsókn fyrirtækisins, en fyrr í dag sendu níu fræðimenn við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri frá sér yfirlýsingu þar sem framkvæmd rannsóknarinnar er gagnrýnd. Bent er á að söfnunin sé unnin með slíkri leiftursókn að ekki hafi gefist ráðrúm til upplýstrar umræðu sem er forsenda þess að fólk geti mótað sér upplýsta afstöðu í málinu. Þau segja að málefnalegum ábendingum sé svarað með skætingi og ávæningi um annarlegar hvatir. Þá er gagnrýnt að málinu sé blandað saman við góðgerðastarfsemi og skemmtikraftar fengnir til að auglýsa söfnunina. Allt fari þetta í bága við vinnubrögð í þroskuðu lýðræðissamfélagi og orki tvímælis í ljósi þeirra viðmiða sem mótast hafa í siðfræði rannsókna.

Tengt: Sérfræðingar gagnrýna sýnasöfnun ÍE

Fengu leyfi Vísindasiðanefndar

Í tilkynningu Íslenskrar Erfðagreiningar er því haldið fram að í öllu undirbúnings- og framkvæmdarferli rannsóknarinnar hafi verið farið að lögum, meðal annars með því að sækja í tvígang um leyfi til Vísindasiðanefndar og með því að senda Persónuvernd lýsingu á rannsókninni. Í tilkynningunni kemur fram að Persónuvernd hafi ekki gert neina athugasemd við málið.

Þrátt fyrir að lagalegar skyldur fyrirtækisins vegna rannsóknarinnar og átaksins séu skilmerkilega útlistaðar svarar tilkynning Íslenskrar Erfðagreiningar hins vegar ekki þeim siðferðislegu og lýðræðislegu vafamálum sem fræðimennirnir vekja athygli á.

Fræðimenn hafa gagnrýnt að góðgerðasamtökum og skemmtikröftum hafi verið blandað í átak Íslenskrar Erfðagreiningar
Skemmtikraftar og góðgerðarsamtök Fræðimenn hafa gagnrýnt að góðgerðasamtökum og skemmtikröftum hafi verið blandað í átak Íslenskrar Erfðagreiningar
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tilkynning Íslenskrar Erfðagreiningar

Að gefnu tilefni vill Íslensk erfðagreining koma eftirfarandi á framfæri.

Áður en Íslensk erfðagreining hóf rannsóknina Samanburðarsýni - Öflun þátttakenda af öllum landsvæðum í samanburðarhóp fyrir erfðarannsóknir, sótti fyrirtækið um leyfi Vísindasiðanefndar, og sendi nefndinni rannsóknaráætlun og öll gögn sem send eru væntanlegum þátttakendum, þ.e. möppu með kynningarbréfi, samþykkisyfirlýsingum og upplýsingar með þeim, spaða fyrir sýnatöku og umslag til að setja undirrituð samþykki og lífsýni í, til að setja í póst eða afhenda starfsfólki Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna. Sótt var um leyfi fyrir að senda boð um þátttöku í pósti og einnig fyrir að kynna rannsóknina og afla þátttakenda á fjölförnum stöðum, svo sem í háskólum og líkamsræktarstöðum, og á opnu húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Leyfi Vísindasiðanefndar var gefið út 8. október 2013.

Jafnframt tilkynni Íslensk erfðagreining rannsóknina til Persónuverndar þann 11. október 2013, í samræmi við 2. mgr. 4. gr. reglna nr 712/2008. Persónuvernd voru send sömu gögn og Vísindasiðanefnd fékk, þ.e. mappa með öllum gögnum sem væntanlegir þátttakendur fá. Haft var samráð við Persónuvernd varðandi nálgun við þátttakendur. Tilkynningin (númer S6442/2013 og birt á vef Persónuverndar.

Persónuvernd hefur ekki gert athugasemd við rannsóknina eða framkvæmd hennar, en yfir 12,000 manns hafa tekið þátt í henni frá því í október 2013.

Áður en átak Íslenskrar erfðagreiningar, Útkall í þágu vísinda (S6442/2013) hófst 6. maí sl., var sótt um viðbótarleyfi Vísindasiðanefndar og Persónuvernd send viðbótartilkynning um aðkomu Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, sem felst í að björgunarsveitarmenn ganga í hús og taka við gögnum frá þátttakendum, sem það vilja, í lokuðu umslagi og flytja til Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna. Vísindasiðanefnd gaf út leyfi 5. maí, en heimilt er að hefja rannsókn um leið og hún hefur verið tilkynnt til Persónuverndar.

Í viðbótarumsókn til Vísindasiðanefndar og viðbótartilkynningu til Persónuverndar kom eftirfarandi fram:

Öll gögn sem væntanlegir þátttakendur fá eru óbreytt frá þeirri rannsókn sem Persónuvernd var tilkynnt um þann 11.10.2013, þ.e. kynningarbréf, samþykkisyfirlýsingar og upplýsingar með þeim, spaðar fyrir sýnatöku, skilaumslag og mappan utan um gögnin, fyrir utan þá einu skýringu á möppunni að sjálfboðaliðar í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg munu taka við gögnum þeirra sem vilja. Þannig kom fram að
· félagar í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg munu ganga í hús og taka við gögnum frá þátttakendum í lokuðu umslagi og flytja til Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna,
· Íslensk erfðagreining mun styrkja Slysavarnarfélagið Landsbjörg um 2000 kr. fyrir hvern þátttakanda
· á möppunni sem inniheldur gögn til þátttakenda breytast skýringar á ferlinu (liður 4) þannig: Félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu munu svo sækja umslagið til þín innan fárra daga. Einnig má setja umslagið ófrímerkt í næsta póstkassa, í stað: Afhenda starfsfólki Þjónustumiðstöðvar rannsóknaverkefna eða setja ófrímerkt í næsta póstkassa,
· eins konar einkennisbelti fyrir átakið ÚTKALL Í ÞÁGU VÍSINDA er smeygt utan um möppuna með gögnunum. Á því er þátttökuferlinu lýst á einfaldan hátt.

Vinnsla almennra og viðkvæmra persónuupplýsinga í þágu vísindarannsóknar, sem byggir á upplýstu samþykki þátttakenda er ekki leyfisskyld hjá Persónuvernd. Þegar vinnsla persónuupplýsinga byggir á upplýstu samþykki ber að senda Persónuvernd tilkynningu um hana samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglna nr 712/2008, um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Þetta gildir þó ekki þegar um er að ræða aðgang að sjúkraskrá einstaklinga, þá þarf alltaf leyfi Persónuverndar fyrir slíkum aðgangi.

Í reglum Persónuverndar nr. 1100/2008 um meðferð persónuupplýsinga við framkvæmd erfðarannsókna, er skýrt kveðið á um í 11. gr. að vinnsla persónuupplýsinga vegna hverrar, einstakrar erfðarannsóknar skal tilkynnt til Persónuverndar í samræmi við 31. og 32. gr. laga nr. 77/2000, sbr. reglur nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga. Jafnframt er í 3. gr. kveðið á um að áður en einstaklingur tekur þátt í erfðarannsókn með því að gefa lífsýni og veita um sig persónuupplýsingar skal aflað samþykkis hans í samræmi við reglur Persónuverndar nr. 170/2001 um það hvernig afla skal upplýsts samþykkis fyrir vinnslu persónuupplýsinga í vísindarannsókn á heilbrigðissviði.

Þeir sem hafa með höndum erfðarannsóknir skulu einnig senda Persónuvernd skriflega lýsingu á því vinnuferli sem fylgt er við slíkar rannsóknir, þ. á m. hvernig samþykkis þátttakenda er aflað, hvort og þá hvernig upplýsingar eru samkeyrðar og hvernig öryggis upplýsinga er gætt. Ef fylgt er sama vinnuferli við fleiri en eina rannsókn á vegum sama aðila nægir ein, sameiginleg, skrifleg lýsing fyrir allar þær rannsóknir sem lýsingin á við um. Persónuvernd skal greint skriflega frá öllum breytingum á vinnuferlinu sem ekki geta talist minniháttar.

Íslensk erfðagreining hefur á allan hátt fylgt lögum og reglum varðandi rannsókn fyrirtækisins Samanburðarsýni - Öflun þátttakenda af öllum landsvæðum í samanburðarhóp fyrir erfðarannsóknir og átaksins Útkall í þágu vísinda með liðsinni Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Tengt: Læknir: Björgunarsveitir notaðar sem „sálfræðilegur þrýstingur“ við sýnasöfnun

Tengt: „Þegar það kemur að læknisfræðirannsóknum þá eru hlutirnir allt í einu heilagir“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.