Sakar Guðna um hómófóbíu og kvenfyrirlitningu

Erling og Björn Valur segja Guðna segja „brandara“ um áhrifakonur í samfélaginu á kostnað kyns þeirra

Neitaði að tjá sig við DV um ummæli Erlings og Björns Vals um kvenfyrirlitningu Guðna á fjöldasamkomum.
Guðni Ágústsson Neitaði að tjá sig við DV um ummæli Erlings og Björns Vals um kvenfyrirlitningu Guðna á fjöldasamkomum.
Mynd: Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

„Hann byrjaði ágætlega. Talaði um rollur og ullina og svo svissaði hann beint yfir í að klæmast eitthvað - svissaði yfir í hómófóbíu og kvenfyrirlitningu. Þannig að þetta breyttist frá því að vera fyndið, yfir í að vera ekki fyndið,“ segir Erling Ingvason í samtali við DV í dag en stöðuuppfærsla hans á Facebook um skemmtun Guðna Ágústssonar og Sigurvins „fílsins“ Jónssonar á Græna hattinum í fyrravetur, hefur vakið athygli í Facebook-hópnum Kynlegar athugasemdir í dag. Sóttu þau Erling, Margrét Thorarensen, eiginkona hans, og Margrét Helga Erlingsdóttir, dóttir þeirra, skemmtunina og var þeim misboðið vegna kvenfyrirlitningar sem Erling segir Guðna hafa sýnt.

Segir Guðna Ágústsson hafa sýnt kvenfyrirlitningu þegar hann skemmti á Græna hattinum í fyrravetur þar sem hann gerði grín að Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, á kostnað kyns og kynhneigðar hennar.
Erling Ingvason Segir Guðna Ágústsson hafa sýnt kvenfyrirlitningu þegar hann skemmti á Græna hattinum í fyrravetur þar sem hann gerði grín að Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, á kostnað kyns og kynhneigðar hennar.
Mynd: Úr einkasafni

Að hans sögn tók Guðni þar sérstaklega fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra. „Kynhneigð hennar og þingsköpin, hann var að leika sér að orðum þar, þannig að þú getur ímyndað þér hvernig það fúnkerar. Þetta var alveg glatað hjá honum, en það var hlegið að þessu – nema við hlógum ekki,“ segir Erling. Hann segir Guðna hafa hæðst að Jóhönnu „út í eitt.“ „Þetta var eitthvað svo asnalegt að það er varla hægt að tala um þetta.“

„Var þetta bara djók?“

Hann segir Guðna vera í sérstakri stöðu þegar hann „djókar“ á þennan hátt, verandi fyrrum framamaður í þjóðfélaginu. „Þetta er klárlega undir þeim formerkjum að þetta sé djók en þetta er ósmekklegt. Sérstaklega fyrir menn sem hafa verið framamenn í þjóðfélaginu og ætla svo bara að hoppa inn í það aftur – þá spyr maður sig; hver eru raunveruleg viðhorfin hjá þeim? Er það hómófóbía og kvenfyrirlitning, er það það sem hann ætlar að taka með sér inn í pólitíkina aftur – eða var þetta bara djók?“

Þá segir hann Guðna vera fyndinn þegar hann talar um rollur og ull, það meiði engan. Hann hafi gengið meira og meira fram af þeim þremur og kvöldið hafi verið vonbrigði.

Erling Ingvason segir Guðna Ágústsson hafa „hæðst að Jóhönnu út í eitt“ á skemmtun á Akureyri síðasta veturinn sem Jóhanna var forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir Erling Ingvason segir Guðna Ágústsson hafa „hæðst að Jóhönnu út í eitt“ á skemmtun á Akureyri síðasta veturinn sem Jóhanna var forsætisráðherra.

„Tussan á Hönnu Birnu“

Fleiri hafa tjáð sig um „grín“ Guðna að konum á fjölmennum samkomum. Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, birti í gær pistil á vefsíðunni Herðubreið.is um Guðna Ágústsson og hugsanlegt framboð hans fyrir Framsóknarflokkinn í borgarstjórnarkosningum í maí. Segir hann það fara vel á því, enda sé Guðni „bæði hnyttinn og skemmtilegur.“

Nefnir Björn í því samhengi dæmi um að mikið hafi verið hlegið á nokkrum borðum á herrakvöldi stuttu fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. „Þegar Guðni skemmti viðstöddum með bröndurum af „tussunni á henni Hönnu Birnu“ og bólförum Sóleyjar Tómasdóttur sem báðar voru að sækjast eftir kjöri í borgarstjórn. Það voru aldeilis gamansögur sem Guðni gæti fært inn í sali borgarstjórnar í vor,“ segir Björn Valur.

Björn Valur Gíslason segir Guðna hafa sagt brandara á herrakvöldi fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar um „tussuna á Hönnu Birnu.“
Hanna Birna Kristjánsdóttir Björn Valur Gíslason segir Guðna hafa sagt brandara á herrakvöldi fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar um „tussuna á Hönnu Birnu.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Neitar að tjá sig

Guðni Ágústsson neitaði að tjá sig um ofangreind mál í samtali við DV í kvöld. Greint var frá því á dögunum að kjördæmasamband Framsóknarflokksins í Reykjavík vilji að Guðni leiði listann í borginni og líkt og DV hefur greint frá hyggst Guðni tilkynna á sumardaginn fyrsta hvort hann taki það að sér. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að hann styðji val kjördæmasambandsins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.