Ísland er „norrænt bananalýðveldi“

Sagður „versti sendiherrann fyrir íslenskan túrisma“ erlendis síðan Eyjafjallajökull gaust

Steinar Bragi er gagnrýninn á Ísland í viðtalinu og segist meðal annars telja að landið þurfi að ganga í Evrópusambandið.
Gagnrýninn á Ísland Steinar Bragi er gagnrýninn á Ísland í viðtalinu og segist meðal annars telja að landið þurfi að ganga í Evrópusambandið.

„Við þjáumst af menningarlegri einangrunarhyggju og hræðumst það sem er öðruvísi og minnum á Úkraínu, þjóðin er full af litlum útgáfum af Vladimír Pútín sem hafa það eitt að markmiði að halda Íslandi utan við Evrópusambandið,“ segir rithöfundurinn Steinar Bragi í viðtali við sænska dagblaðið Dagens Nyheter. Viðtalið var birt í blaðinu á föstudaginn.

Í viðtalinu talar Steinar Bragi um Ísland eftir bankahrunið 2008 en rithöfundurinn hefur fengið mikla umfjöllun í sænskum fjölmiðlum eftir útgáfu á þýðingunni á Hálendinu, hruntengdu hrollvekju sinni sem kom út á íslensku árið 2012. Bókin hefur fengið góða dóma í Svíþjóð og hefur Dagens Nyheter til dæmis verið með hana á lista sínum yfir áhugaverðustu nýútkomnu skáldsögurnar svo vikum skiptir.

Blaðamaður Dagens Nyheter hefur orð á því að viðtalinu að Steinar Bragi tali þannig um Ísland að hann sé líklega „versti sendiherrann fyrir íslenska túrisma síðan Eyjafjallajökull gaus“. Steinar Bragi er mjög gagnrýninn á Ísland og þá einangrunarhyggju sem hann telur ríða röftum í landinu auk þess sem hann segir að enginn hafi ennþá axlað ábyrgð á hruninu.

Túlkun blaðamanns Dagens Nyheter er á þessa leið: „Hann lætur Ísland líta út eins og norrænt bananalýðveldi með verðlítinn gjaldmiðil sem henda ætti út í hafsauga í skiptum fyrir evru.“

Í viðtalinu dregur Steinar Bragi upp dökka mynd af Íslandi og nefnir meðal annars það ofbeldi sem viðgengst á götum miðbæjarins um helgar. Segir höfundurinn frá því meðal annars að hann hafi þrisvar sinnum verið barinn í miðbæ Reykjavíkur.

Viðtalið má sjá hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.