Gabbið kostar minnst 20 milljónir

Neyðarkallið sem barst á sunnudag var að öllum líkindum gabb

Þyrlur Landhelgisgæslunnar, kafarar, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og finnskar björgunarþyrlur tóku þátt í leitinni á sunnudag.
Umfangsmikil leit Þyrlur Landhelgisgæslunnar, kafarar, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og finnskar björgunarþyrlur tóku þátt í leitinni á sunnudag.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Kostnaður við leitina á Faxaflóa vegna neyðarkalls sem barst Landhelgisgæslunni á sunnudag er að minnsta kosti 20 milljónir, þetta kemur fram í frétt Ríkissjónvarpsins í kvöld,

Ekkert bendir til að bátur hafi sokkið

„Okkur vantar aðstoð – við erum úti við Faxaflóa – Yfir – Báturinn er farinn að leka mikið og við erum að fara í flotgallana,“ sagði í aðstoðarbeiðni sem varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fengu klukkan 14:54 á sunnudag á neyðar- og uppkallsrás skipa og báta.
Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út auk kafara og björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Finnskar björgunarþyrlur sem taka þátt í æfingunni Iceland Air Meet 2014 voru einnig við leit og Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð. Allt að tvö hundruð manns tóku því þátt á sunnudag, en Landhelgisgæslan hætti leitinni eftir hádegi í gær. Þá virtist ekkert benda til þess að bátur hafi sokkið á svæðinu og engar frekari upplýsingar borist. Það má þvi leiða líkur að því að um gabb hafi verið að ræða.

Kostnaðurinn hleypur á 20 milljónum

„Við létum kanna hver væri áætlaður kostnaður af þessu. Tækjakostnaðurinn hleypur á 20 milljónum eða svo og þá erum ekki að tala um alla þá sem hafa lagt sig í hættu við að fara í þessar aðgerðir; alla 200 björgunarsveitarmennina sem komu að þessu og svo framvegis. Hér er auðvitað um að ræða stórkostlega háar fjárhæðir, líka mikinn tíma og orku frá fólki sem vinnur þess störf í sjálfboðavinnu. Það er auðvitað mjög alvarlegt ef hér er um að ræða gabb,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í kvöldfréttatíma RÚV.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú málið og biður þá sem geta gefið vísbendingar um hver kunni að hafa sent skilaboðin að hafa samband í síma 444-1000.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.