„Geti þýtt endalok mannkyns ef ekki er haldið rétt á spöðunum“

Íslenskur heimspekinemi segir gervigreind hafa þróast hratt á síðustu árum

Þorbjörn Kristjánsson hefur mikinn áhuga á þeim siðferðislegu spurningum sem vakna þegar kemur að þróun gervigreindar og vitvéla.
Ýmsar siðferðisspurningar Þorbjörn Kristjánsson hefur mikinn áhuga á þeim siðferðislegu spurningum sem vakna þegar kemur að þróun gervigreindar og vitvéla.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Útlit er fyrir að vitvélar gæddar gervigreind muni skipa æ meiri sess í lífi okkar allra á komandi áratugum en þær eru nú þegar notaðar í hverskyns iðnaði, hernaði og störfum sem snúa að aðhlynningu. Rannsóknir á sviði gervigreindar hafa verið í ákveðnum veldisvexti á síðustu árum og vilja sumir vísindamenn meina að ef fram fer sem horfir geti gervigreind náð mannlegri greind áður en langt um líður. Þetta vekur upp ýmsar spurningar, ekki síst hjá sálfræðingum, félagsfræðingum og heimspekingum sem eru í auknum mæli farnir að rannsaka þetta svið.

Þorbjörn Kristjánsson, 26 ára meistaranemi í heimspeki við háskólann í Árósum í Danmörku, hefur mikinn áhuga á þeim siðferðilegu spurningum sem vakna þegar kemur að þróun gervigreindar og vitvéla. Hann vann nýlega verkefni sem sneri meðal annars að því að finna og greina áhættuþætti og mögulega misnotkun á gervigreind. Verkefnið var unnið undir leiðsögn Kristins Þórissonar, framkvæmdastjóra Vitvélastofnunar Íslands og dósents við Háskólann í Reykjavík, en nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti verkefnið. Blaðamaður DV hitti Þorbjörn á dögunum og ræddi við hann um námið, áhugann á þróun gervigreindar og mögulegar framtíðarspár.

Endalok mannkyns?

Áhugi Þorbjörns á félagshegðun vélmenna [e. Social robotics] kviknaði þegar hann kynntist hinum svokallaða Pensor-hópi í Árósaháskóla. „Ég mætti á nokkra fundi hjá þeim og áttaði mig á því að þetta er svið sem hefur ekki verið rannsakað mikið innan heimspekinnar. Þarna voru heimspekingar, sálfræðingar, félagsfræðingar og aðrir fræðimenn saman komnir til þess að velta upp mjög áleitnum spurningum þegar kemur að þróun þessarar tækni, eins og til dæmis í tengslum við notkun dróna í stríðsrekstri, siðfræði stríðs, og þessa gríðarlegu tækni- og gervigreindarvæðingu í stríðsrekstri,“ segir Þorbjörn sem féll fyrir efninu.

Gervigreind hefur verið skilgreind sem þau vísindi og verkfræði sem snúast um að búa til greindar vélar. Eftir því sem tækninni fleygir fram verða siðferðilegar spurningar sífellt áleitnari. „Ég held persónulega að það sé of lítið pælt í siðferðilega þættinum,“ segir Þorbjörn og bætir því við að notkun og þróun gervigreindar veki upp fjölmargar siðferðisspurningar. „Nick Bostrom, prófessor við Oxford-háskóla, hefur til dæmis nefnt að þessi tækniþróun geti þýtt endalok mannkyns ef ekki er haldið rétt á spöðunum.“

Í grein sinni „Existential Risks: Analysing Human Extinction Scenarios and Related Hazards,“ greinir Bostrom á ítarlegan hátt ýmsar áhættur við þróun og notkun gervigreindar og örtækni [e. Nanotechnology]. Hann bendir á möguleikann á því að gervigreind taki á einhverjum tímapunkti fram úr mannlegri greind en það geti mögulega leitt til þess að maðurinn verði undir í samkeppni við eigið sköpunarverk. „Þessar fullyrðingar eru ef til vill öfgakenndar, en engu að síður bendir Bostrom á þætti sem við þurfum að vera vel vakandi fyrir,“ segir Þorbjörn.

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Þorbjörn sem birtist í helgarblaði DV. Áskrifendur geta lesið það í heild með því að smella á meira hér fyrir neðan

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.