Lögreglumenn nota snjallgleraugu

Tilraunaverkefni í Dubai. Andlitsgreiningartækni mun þekkja eftirlýsta glæpamenn.

Mynd: Google

Lögreglan í borginni Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hefur ákveðið að innleiða notkun snjallgleraugna hjá lögreglunni. Gleraugun munu aðstoða þá við að hafa uppi á eftirlýstum glæpamönnum.

Google Glass snjallgleraugun hafa vakið mikla athygli á síðastliðnu ári, ekki síst hjá lögregluyfirvöldum. Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur til að mynda nýlega gert rannsóknir á skilvirkni snjallgleraugna við lögreglueftirlit.

Nú hyggst lögreglan í Dubai, fjölmennustu borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna, innleiða notkun slíkra tækja. Fari allt eftir óskum munu snjallgleraugun tengjast miðlægum gagnagrunni sem geymir upplýsingar um andlitsgerð eftirlýstra glæpamanna. Þá verður lögregluþjónum gert viðvart ef slíkir aðilar verða á vegi þeirra.

Dubai er ríkasta og fjölmennasta borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Dubai Dubai er ríkasta og fjölmennasta borg Sameinuðu arabísku furstadæmanna.

Verkefnið er enn á tilraunastigi. Fyrst um sinn mun notkun snjallgleraugnanna takmarkast við eftirlit með umferðarbrotum. Gangi það vel stendur til að innleiða notkun þeirra hjá rannsóknarlögreglunni og tengja gleraugun við gagnagrunn sem geymir andlitsgerð þekktra glæpamanna.

Snjallgleraugun frá Google kosta um 1500 Bandaríkjadali stykkið eða um 180 þúsund íslenskar krónur. Verkefnið er því í dýrari kantinum. Dubai er þó ein ríkasta borg heims. Lögreglan þar ekur um á rándýrum Lamborghini bifreiðum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.