Á áttunda degi hungurverkfalls á Fit hostel

Gyðingur sem var ofsóttur í Írak og Slóvakíu - Vill eiga örugga framtíð á Íslandi

Maðurinn mótmælir synjun útlendingastofnunar.
Hungurverkfall Maðurinn mótmælir synjun útlendingastofnunar.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

37 ára gyðingur og hælisleitandi frá Írak á flótta, hefur verið í hungurverkfalli í átta daga. Hann fékk þau svör frá útlendingastofnun 17. október síðastliðinn að umsókn hans um hæli á Íslandi yrði ekki tekin til efnislegrar meðferðar því hann hefði þegar fengið stöðu flóttamanns í Slóvakíu. Hann ætlar að svelta sig þar til jákvætt svar berst og til dauða verði niðurstaðan neikvæð. „Ég vil deyja á Íslandi hvort sem það er núna eða sem gamall maður. Ég fer ekki til baka til Slóvakíu,“ segir hann.

Hannkveðst hafa orðið fyrir ofsóknum og líflátshótunum í Slóvakíu og hafði því neyðst til að flýja. „Það eru mikil vonbrigði að umsóknin mín á Íslandi hafi ekki verið tekin til efnislegrar meðferðar. Með ákvörðun útlendingastofnunar er verið að senda mig út í dauðann. Ég vil frekar deyja á Íslandi en að fara aftur til Slóvakíu,“ segir hann. Eftir átta daga hungurverkfall er hann orðinn máttfarinn og hefur læknir fylgst með ástandi hans. Starfsfólk á vegum Rauða krossins og Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ heimsækir hann reglulega og fylgist með líðan hans. Hann dvelur á Fit hosteli í Reykjanesbæ en hefur verið tímabundið á sjúkrahúsi þar sem honum var gefin næring í æð.

Að sögn Kolbrúnar Garðarsdóttur, lögmanns hælisleitandans, hefur ákvörðun útlendingastofnunar verið kærð til innanríkisráðuneytis og verður honum ekki vísað úr landi á meðan ráðuneytið endurskoðar málið. Innanríkisráðuneyti hefur nú þrjá mánuði til að fara yfir gögn hansen farið hefur verið fram á að það verði gert á styttri tíma. Verði niðurstaða ráðuneytisins jákvæð mun útlendingastofnun taka málið til efnislegrar meðferðar.

Frá Írak vegna ofsókna

Hann bjó í borginni Kirkuk í Írak til ársins 2010 er hann flúði til Slóvakíu. Hann var grunnskólakennari í Írak og starfrækti stofnun sem barðist fyrir réttindum barna. Móðir hans er gyðingur en faðir múslimi. Gyðingar eru í miklum minnihluta í Írak og verða fyrir stöðugum ofsóknum. Talið er að fyrir 60 árum hafi gyðingar í Írak verið um 130.000 talsins en nú eru örfáir eftir. Adam segir móður sína eina gyðinginn sem eftir er í borginni Kirkuk. „Írak er ekki öruggur staður fyrir gyðinga. Þeir hafa ekki rétt til að koma saman og iðka sína trú. Þar er ekki borin virðing fyrir frelsi og mannréttindum. Ég varð fyrir ofsóknum vegna trúar minnar og starfs. Ég er á móti því að börn beri slæður og séu umskorin og hef verið yfirheyrður vegna þess og sat í mánuð í fangelsi. Mér var sagt að slík sjónarmið væru ekki liðin í íslömsku samfélagi.“

Ofbeldi í Slóvakíu

Í Slóvakíu var hann með stöðu flóttamanns en ákvað að fara þaðan til Íslands vegna ofsókna frá múslimum. „Ég bað oft um hjálp og fór alltaf til lögreglunnar eftir að ég hafði orðið fyrir ofbeldi en fékk enga hjálp, hvorki frá þeim, félagsþjónustunni, innflytjendayfirvöldum né öðrum.“

Eiginkonan í Ísrael

Eiginkona hans er frá Ísrael og býr þar. Hann reyndi að fá að setjast þar að áður en leiðin lá til Íslands. „Það gekk því miður ekki upp, meðal annars vegna þess hve slæmt samband er á milli ríkjanna tveggja, Ísrael og Írak. Ég var krafinn um mikið af gögnum til að sanna að fjölskylda mín séu gyðingar. Ég gat ekki útvegað þessi gögn.“ Hann segir ekki mögulegt fyrir móður sína að fara til yfirvalda og sækja um fæðingarvottorð þeirra fjölskyldumeðlima sem eru gyðingar til að senda til Ísraels. „Hún fengi þessi gögn ekki afhent og yrði sett í fangelsi fyrir að sækja um þau.“

Draumurinn dáinn

Draumar hans um framtíðina eru að setjast að á Íslandi, stofna fjölskyldu með eiginkonu sinni og fá vinnu. „Ég hafði heyrt að Ísland væri öruggur staður og að hér væru gyðingar ekki ofsóttir. Ég hef trú á því að við hjónin getum átt gott líf hér. Svo ákvað útlendingastofnun því miður að taka málið mitt ekki til efnislegrar meðferðar og þá dó draumurinn minn.“ Hann segir það einnig mikilvægt fyrir sig að ekki neinn Íslendingur starfi með vígasamstökunum Íslömsku ríki. „Í fréttum hef ég heyrt af fólki frá Bretlandi, Frakklandi og víðar sem gengið hefur til liðs við samtökin. Ég hef ekki heyrt af neinum frá Íslandi og því tel ég að ég verði öruggastur hér.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.