Mogginn fjarlægði frétt um mál Hönnu Birnu

Greinin hvarf af vefnum skömmu eftir að hún birtist - Enginn í Hádegismóum getur útskýrt hvers vegna

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur ítrekað haft samband við ritstjóra DV í þeim tilgangi að stöðva fréttaflutning blaðsins. Frétt sem Morgunblaðið birti á vef sínum í gær var stuttu síðar fjarlægð.
Fréttin fjarlægð Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur ítrekað haft samband við ritstjóra DV í þeim tilgangi að stöðva fréttaflutning blaðsins. Frétt sem Morgunblaðið birti á vef sínum í gær var stuttu síðar fjarlægð.

„Baðst undan Kastljósviðtali“ er fyrirsögn fréttar sem Mbl.is, fréttavefur Morgunblaðsins, birti á vef sínum klukkan 21:50 í gærkvöldi. Þar var greint frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, hefði beðist undan því að mæta í viðtal í Kastljósinu til að ræða trúnaðarbrest ráðuneytisins gagnvart hælisleitendum. Þá kom fram að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefði komið Hönnu Birnu til varnar í þættinum. Fréttin var stuttu síðar fjarlægð af vefnum en hún finnst með leitarforritinu Google. Sé smellt á fréttina núna kemur upp villa þar sem tilgreint er að fréttin sé ekki til: „Ekki fannst virk frétt með þessum auðkennum.“

Í frétt mbl.is kom fram að Hanna Birna hefði beðist undan því að koma í viðtal í Kastljósið. Þegar smellt er á fréttina kemur fram að hún sé ekki til.
Ekki frétt Í frétt mbl.is kom fram að Hanna Birna hefði beðist undan því að koma í viðtal í Kastljósið. Þegar smellt er á fréttina kemur fram að hún sé ekki til.

Eins og greint var frá í Kastljósi hefur Hanna Birna ítrekað beðist undan því að koma í Kastljóssviðtal vegna trúnaðarbrestsins. Ráðherrann hafði loks samþykkt að sitja fyrir svörum í vikunni en hætt við með skömmum fyrirvara. Ragnheiður Ríkharðsdóttir svaraði spurningum Kastljóss í staðinn og kom Hönnu Birnu til varnar. Jafnframt var rætt við Mörð Árnason, varaþingmann Samfylkingarinnar, og Stefán Karl Kristjánsson, lögmann Tony Omos.

Guðrún Hálfdánardóttir, fréttastjóri mbl.is, sagðist ekki kannast við málið þegar DV náði tali af henni og benti blaðamanni á að tala við Harald Johannessen ritstjóra. Ekki náðist í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Vísir birti einnig frétt um málið í gærkvöldi undir fyrirsögninni „Hanna Birna hætti við að mæta í Kastljósið.“ Þeirri frétt var síðar breytt, bæði innihaldinu og fyrirsögninni sem er nú: „Mun ekki tjá sig efnislega um lekamálið fyrr en niðurstaða liggur fyrir“.

„Maður sem hefur eitthvert vit á því hvernig svona blöð verða til sér að þetta er blað sem verður til inni í ráðuneyti,“ sagði Mörður í samtali við Kastljósið.
Ráðuneytisblað „Maður sem hefur eitthvert vit á því hvernig svona blöð verða til sér að þetta er blað sem verður til inni í ráðuneyti,“ sagði Mörður í samtali við Kastljósið.

DV hefur fjallað ítarlega um málið síðustu vikur en ráðherra og aðstoðarmenn hennar hafa ítrekað haft samband við ritstjóra blaðsins og reynt að stöðva fréttaflutning. Þá hefur þess verið farið á leit við DV að fréttum sé eytt.

Málið snýst um minnisblað innanríkisráðuneytisins sem Morgunblaðið fullyrti í nóvember að það hefði undir höndum. Fréttablaðið, Vísir og Morgunblaðið birtu fréttir sem byggðu á minnisblaðinu. Hanna Birna og aðstoðarmenn hennar halda því fram að athugun rekstrarfélags stjórnarráðsins staðfesti að engum trúnaðargögnum úr ráðuneytinu hafi verið komið í hendur fjölmiðla. DV fær engin svör um þessa athugun frá rekstrarfélaginu sjálfu.

Sérstök umræða var um málið á Alþingi í vikunni og fóru þingmenn fram á að gerð yrði óháð rannsókn á málinu. Mörður Árnason, varaþingmaður Samfylkingarinnar, ítrekaði þetta í samtali við Kastljós í gær: „Innanríkisráðherra verður að hreinsa sig pólitískt af málinu og ég held að til þess dugi ekkert annað sérstök rannsókn.“ Þá sögðu bæði hann og Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður hælisleitandans, að enginn vafi léki á því að minnisblaðið ætti uppruna sinn í ráðuneytinu. „Maður sem hefur eitthvert vit á því hvernig svona blöð verða til sér að þetta er blað sem verður til inni í ráðuneyti, sem ráðherra eða ráðuneytisstjóri eða aðstoðarmaður í nafni ráðherra biður embættismann um að búa til og skýra fyrir sér málið frá öllum hliðum og það er ólíklegt að þetta blað verði til einhvernveginn öðruvísi,“ sagði Mörður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.