Segir Baldur hafa fengið Jón Baldvin sem gestafyrirlesara

„Hann hefur ekki verið ráðinn til neinna starfa við Háskóla Íslands“

„Hið rétta í málinu er að hann hefur ekki verið ráðinn til neinna starfa við Háskóla Íslands. Hið rétta er að hann er gestafyrirlesari í námskeiði sem Baldur Þórhallsson kennir vanalega,“ segir Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í samtali við DV.is þegar hann er spurður út í störf Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra Íslands, við Háskóla Íslands þar sem fyrirhugað er að Jón Baldvin verði gestafyrirlesari á námskeiði í haust þar sem fjallað verður um smáþjóðir í alþjóðakerfi.

Femínistarnir Helga Þórey Jónsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir lýstu yfir óánægju sinni vegna fyrirhugaðra starfa Jóns Baldvins við Háskóla Íslands og sögðu það vera niðurlægjandi fyrir þolendur Jóns og þolendur kynferðisofbeldis um allan heim í ljósi bréfaskrifta Jóns Baldvins við systurdóttur eiginkonu sinnar sem greint var frá í Nýju lífi. „Við ætlum ekki að taka henni þegjandi,“ segja Helga Þórey og Hildur Lilliendahl um ráðningu Jóns Baldvins í greininni sem birtist á vefritinu Knúz.is.

Daði Már bendir þó á að Jón hafi ekki verið ráðinn til starfa af Háskóla Íslands heldur hafi Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, fengið Jón Baldvin sem gestafyrirlesara á meðan Baldur er í rannsóknarleyfi.

„Baldur Þórhallsson fékk Jón sem gestafyrirlesara inn í námskeiðið. Þetta er sem sagt á ábyrgð einstakra fastra kennara að semja við gestafyrirlesara. Ef um eiginlega ráðningu hefði verið að ræða þá skil ég mjög vel að það séu sjónarmið þar um að þetta orki tvímælis. Það er í rauninni meira en það. Það má líka velta fyrir sér menntunarbakgrunni og hæfi og öðru slíku. Ráðning við háskólann er miklu alvarlegra mál. Þegar menn eru ráðnir inn sem gestafyrirlesarar fer það í rauninni ekki í gegnum neitt ferli,“ segir Daði Már um málið og segist þurfa að ræða þetta mál við Baldur Þórhallsson og fá hans sjónarmið fyrir því að fá Jón Baldvin sem gestafyrirlesara.

„Ég get ekki svarað fyrir Baldur,“ segir Daði Már.

Baldur Þórhallsson og Jón Baldvin voru fyrirlesarar um sama málefni á vormisseri við alþjóðamálastofnun háskólans í Vilníus í Litháen fyrr í ár.

Baldur Þórhallsson. Mynd: dv

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.