Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi

„Okkur þykir hún niðurlægjandi fyrir þolendur Jóns og þolendur kynferðisofbeldis um heim allan“

Mynd: Mynd Gunnar Gunnarsson

„Við förum fram á að Háskóli Íslands og Félagsvísindasvið svari fyrir þessa ráðningu. Okkur þykir hún niðurlægjandi fyrir þolendur Jóns og þolendur kynferðisofbeldis um heim allan. Við ætlum ekki að taka henni þegjandi,“ skrifa femínistarnir Helga Þórey Jónsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir í grein sem birtist á vefritinu Knúz.is.

Þar mótmæla þær því að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, hafi verið fenginn til að kenna við Háskóla Íslands.

Í námskeiðinu mun Jón Baldvin fræða nemendur um smáþjóðir og hvernig þeim vegnar í alþjóðkerfinu. Fyrr á þessu ári var Jón Baldvin fyrirlesari á vormisseri við alþjóðamálastofnun háskólans í Vilníus í Litháen. Námskeiðið sátu meistaraprófsnemar í hagfræði og stjórnmálafræði og mun hann nú halda fyrirlestra um sama efni fyrir nemendur við Háskóla Íslands.

Helga Þórey og Hildur Lilliendahl mótmæla þessu harðlega og segja ekki viðeigandi að Jón Baldvin komi nálægt kennslu við Háskóla Íslands í ljósi bréfa sem hann sendi systurdóttur eiginkonu sinnar og komust í hámæli þegar tímaritið Nýtt líf birti viðtal við hana og bréfin sem Jón Baldvin sendi.

„Er eðlilegt á 21. öld að maður sem hefur komið fram gagnvart börnum með þeim hætti sem hér er lýst, fái griðastað í ellinni innan stofnunar sem vill komast í hóp hinna hundrað bestu? Eigum við kannski að gera það oftar? Kemst Háskóli Íslands þá loksins á topp 100,“ spyrja Helga Þórey og Hildur og rifja upp nokkur brot úr bréfum Jóns Baldvins.

Hildur Lilliendahl. Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég lét Bryndísi les´ana. Það vakti með henni lostafulla værð, svo ég færði mig nær og fór að ríða henni í hægum takti og hún stundi þungt eins og skógardís undir sígröðum satyríkon (maður fyrir ofan mitti – hreðjamikill geithafur að neðan og serðir konur án afláts í draumaheimum grískrar goðsögu. Allavega áhrifamikil saga. Og tilvalin rökkurlesning fyrir unga stúlku sem er hætt að vera barn og er (bráðum?) orðin kona – áður en hún sofnar blíðlega á vit drauma sinn[a],“ er meðal þess sem Jón Baldvin skrifaði Jón Baldvin til stúlkunnar sem var þá ólögráða og lýsti Jón Baldvin meðal annars samskiptum sínum við vændiskonur í Tallinn í Eistlandi.

Rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, var upptekinn þegar DV.is reyndi að ná tali af honum vegna málsins og á því enn eftir að svara þessu erindi Helgu Þóreyjar og Hildar Lilliendahl.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.