Sam­kyn­hneigð „hvetur til mann­rána“

Umdeildur múslimaklerkur á Íslandi

Ahmad Seddeq, múslimaklerkur á Íslandi,  var til viðtals í Spegli RÚV í gær.
Umdeildur Ahmad Seddeq, múslimaklerkur á Íslandi, var til viðtals í Spegli RÚV í gær.
Mynd: RÚV

„[Samkynhneigð] hvetur til mannrána, rána á smábörnum og krökkum. Sem eru svo seld á markaði. Þetta hvetur til slíks,“ sagði Ahmad Seddeq, múslimaklerkur á Íslandi, í samtali við Spegil RÚV í gær.

Fjallað var um múslima á Íslandi en Ahmad fer fyrir Menningarsetri múslima. Einnig er til Félag múslima á Íslandi sem er talið frjálslyndara en hitt. En hvorugt félagið viðurkennir samkynhneigð.

Ahmad sagði í samtali við Spegil RÚV að börnum sé rænt og þau seld á marköðum svo samkynhneigðir geti ættleitt þau. Því sé samkynhneigð ekki viðurkennd.

Lög gegn rógi

Rætt er við Margréti Steinarsdóttur framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands í kvöldfréttum RÚV en hún segir að lög séu gegn því að vera með róg eða háð um tiltekna hópa á grundvelli kynhneigðar eða trúar. Ekki er lagt mat á það hvort ofangreind ummæli varði við hegningarlög en Margrét nefnir að það sé ólöglegt að mismuna fólki á Íslandi.

„Við höfum auðvitað undirgengist að það má ekki mismuna fólki, til dæmis á grundvelli kynhneigðar,“ sagði Margrét við RÚV. Í stjórnarskrá Íslands er hvorki leyft að mismuna mönnum á grundvelli kynhneigðar né trúar. Alla trú má iðka hérlendis svo lengi sem hún er ekki andstæð góðu siðferði.

Sjálfur segir Ahmad að íslamstrú hvetji til jafnréttis. „Spámaðurinn sagði að konur og karlar séu eins og epli sem skipt er í tvennt,“ sagði Ahmad. Þá segir hann að það gangi ekki að konur og karlar ráði jafn miklu á heimilinu, á sama máta og það gangi ekki að hafa tvo æðstu stjórnendur í fyrirtæki.

„Spámaðurinn sagði að siðgæði manna mætti meta út frá því hvernig hann kemur fram við konuna sína,“ sagði Ahmad enn fremur.

Borgaryfirvöld hafa samþykkt veitingu húsalóðar undir bænahús fyrir múslima í Sogamýrinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.