Ása­trúar­fé­lagið á­sælist ekki lóðina

„Þessi umræða er alls ekki frá okkur komin“

Ólafur F vill að Ásatrúarfélagið fái lóð sem það vill ekki fá.
Ólafur og trúin Ólafur F vill að Ásatrúarfélagið fái lóð sem það vill ekki fá.
Mynd: © Gudmundur Vigfusson

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að úthluta Félagi múslima lóð á góðum stað í borginni, í Sogamýri. Þar hyggst félagið reisa mosku. Flestir fagna úthlutuninni og telja hana til marks um umburðarlyndi Reykvíkinga gagnvart ólíkum trúarskoðunum. En ekki allir. Ólafur F. Magnússon, fyrrum borgarstjóri, hefur gagnrýnt úthlutunina harðlega, meðal annars með þeim rökum að réttara væri að úthluta lóðinni til Ásatrúarsafnaðarins.

Nú hafa ásatrúarmenn stigið fram fyrir skjöldu og lýst því yfir að þeir ásælist ekki lóðina, enda hafi þeir nú þegar fengið lóð – fyrir löngu – í Öskjuhlíðinni. Í frétt sem lögsögumaðurinn Hallur Guðmundsson skrifar á heimasíðu Ásatrúarfélagsins og ber yfirskriftina „að gefnu tilefni“ kemur fram að undirbúningur að framkvæmdum við byggingu hofs sé þegar hafinn. Byggingarreiturinn var helgaður þegar minnisvarði um Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoða, var vígður á sumardaginn fyrsta árið 2010. „Þessi umræða er alls ekki frá okkur komin,“ segir Hallur í samtali við DV bætir við: „Við höfum átt í góðum samskiptum við Félag múslima og fögnum fjölbreytileikanum.“

Ólafur getur því andað léttar. Þó er líklegt að andardrátturinn verði enn býsna þungur, enda er það hlutverk Vesturlandabúa að halda múslimum í skefjum að hans mati. „Það er innbyggt í þeirra trú að konur séu kúgaðar, það er innbyggt í þeirra trú að konur skuli haga sér skikkanlega og klæða sig eftir einhverjum reglum sem eru búnar til af öfgamanninum Múhameð. Þeir geta iðkað sína trú, en að troða sinni menningu og sinni trú upp á okkur, það gengur ekki,“ sagði Ólafur meðal annars í samtali við Bylgjuna fyrir skemmstu.

Þarna á moskan að rísa.
Sogamýri. Þarna á moskan að rísa. Mynd: Google

Sjá einnig: Moska varasöm fyrir íslenska þjóðmenningu og öryggi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.