„Sumir upplifðu þetta hreinlega sem ofbeldi“

Átök á aðalfundi Krossins sitja í fólki – Telja framgöngu stuðningsmanna Gunnars til skammar

Gunnar Þorsteinsson
Gunnar Þorsteinsson

„Það eru engin átök í Krossinum. Átökin snúast öll um fjölskyldu Gunnars Þorsteinssonar og hafa ekkert með daglegt starf safnaðarins að gera,“ segir heimildarmaður DV um stöðuna í Krossinum og átökin sem voru á safnaðarfundi á mánudag.
Aðrir sem DV hefur rætt við, hvort sem þeir styðja Sigurbjörgu Gunnarsdóttur eða Gunnar Þorsteinsson í embætti forstöðumanns segja hið sama og rekja átökin til fjölskyldu Gunnars fyrst og fremst. „Krossinn logar ekkert stafna á milli. Hér ríkir kærleikur og vinátta. Það er sérstakt að lesa að það það sé ólga innan safnaðarins. Hún er innan fjölskyldunnar, ekki Krossins.“

„Þar berjast bræður og systur“

Þeir sem DV hafa rætt við eru allir sammála um það að átökin hafi ekki áhrif á safnaðarstarfið beint, þó að vissulega hafi átökin á fundinum tekið sinn toll. Aðsókn á samkomur Krossins, sem haldnar eru tvisvar í viku, hafa að sögn aukist talsvert undanfarið ár og í gær var fjöldi þar samankominn á þriðjudagssamkomu.

Eins og DV greindi frá í gær og í fyrradag voru mikil og hörð átök á fundinum þar sem kjósa átti um nýjan forstöðumann. Í mánudagsblaði DV var einnig fjallað um fyrirhugaðar kosningar en þá sagði Georg Viðar Björnsson stjórnarmaður í Krossinum að kirkjupólitík væri svo miklu verri en venjuleg pólitík. „Þar berjast bræður og systur og vinaböndum er varpað fyrir róða til að ná sínu fram,“ sagði hann, en samkvæmt lýsingum þeirra sem DV hefur rætt við má færa það til sanns vegar.

„Kosningasmölun“

Einn heimildarmaður DV segir að stjórnmálaflokkur hefði verið stoltur af þeirri smölun sem átti sér stað á mánudag, en hún var umtalsverð. Talsvert var um nýskráningar í Krossinn. Átti það bæði við um Sigurbjörgu og Gunnar, en heimildir DV herma að talsvert fleiri nýskráningar hafi tengst Gunnari.

Þá segja heimildamenn DV að hópur af þeim sem mætti á fundinn hafi ekki átt neitt erindi þangað og eru margir sannfærðir um að þeir einstaklingar hafi aldrei haft nein tengsl við söfnuðinn og munu ekki gera það í nánustu framtíð. Þeir hafi aðeins verið þar til að taka þátt í kosningunni. Suma var ekki hægt að skrá í söfnuðinn þar sem þeir voru það illa til reika að þeir höfðu ekki á sér skilríki til að hægt væri að staðfesta þá sem meðlimi. „Þetta er hópur af fólki sem hefur aldrei komið í þessa kirkju áður,“ segir annar heimildarmaður DV og bætir við: „Sumir hverjir voru ekki í ástandi til að vera þarna, ég held að það sé óhætt að segja það.“ Annar segir að framganga stuðningsmanna Gunnars hafi verið til skammar.

Þrúgandi andrúmsloft

Líkt og DV greindi frá í gær voru mest átök um fundarstjórnina, en fyrst varð að ganga frá því hver færi með hana áður en hægt væri að kjósa um forstöðumann.

Sigurbjörg lagði til að lögmaður Krossins, Guðmundur Ragnarsson, yrði fundarstjóri. Gunnar mun hins vegar hafa viljað að Jón Magnússon, lögmaður, yrði fundarstjóri. Var lagt til að þeir yrðu það báðir en fékkst ekki samþykkt.

Sigurbjörg var með umboð einstaklinga til að taka þátt í fundarstjórakjörinu, en Gunnar telur ekki löglegt að taka þátt í kosningum á þann veg. Lögmaður Krossins telur það vera löglegt en nú er þess beðið að niðurstaða fáist í málið svo að hægt sé að endurtaka fundinn.
Þess ber að geta ekkert er kveðið á um að óheimilt sé að veita umboð fyrir atkvæði sínu í samþykkt Krossins, þó að Gunnar telji að svo sé. DV hefur kannað það og ekkert er kveðið á um að ekki megi veita umboð, en fundarstjóra er falið að taka ákvarðanir um vafaatkvæði og kosningin á að vera leynileg.

„Kjörgengi hafa þeir sem með nærveru sinni og efnum (tíundum og fórnum) stuðla að vexti og viðgengi safnaðarins og uppfylla einnig önnur skilyrði Ritninganna,“ segir í 13 grein þeirra reglna sem Krossinn hefur sett sér.

Eins og í áramótaskaupi

Eins og DV greindi frá síðastliðið sumar þá sauð líka upp úr á síðasta aðalfundi, en þá sóttist Gunnar eftir stjórnarsetu og hlaut ekki brautargengi. Þeim fundi lýsti Einar Ólafsson, fyrrum stjórnarmeðlimur, stemningu fundarins á eftirfarandi hátt: „Það þyrfti ekkert áramótaskaup ef þessi safnaðarfundur yrði sendur út í staðinn. Ég hefur verið viðstaddur ýmislegt í lífinu og tekið þátt í ýmsum málum; ég hef aldrei verið viðstaddur svona uppákomu. Ég hef aldrei séð annað eins í lífinu.“

Bíða eftir niðurstöðu

„Við endurtökum þetta þegar niðurstaðan liggur fyrir. Ég veit að við sem söfnuður getum axlað þá ábyrgð, en mér finnst við vera sett í aðstæður sem við viljum alls ekki vera í. Fólki er frjálst að bjóða sig fram til forstöðumanns, en þetta getur ekki gengið svona fyrir sig. Það á að ríkja sátt um svona trúfélög á Íslandi, það er mikilvægt til að tryggja trúverðugleika okkar og stöðu annarra svona félaga,“ segir einn heimildarmanna DV. Þeir sem DV hefur rætt við þykir bæði umfjöllun um þessar deilur erfiðar og að það sé afar slæmt fyrir ímynd safnaðarins.

Þrúgandi andrúmsloft

DV greindi frá því í gær að kalla hefði þurft lögreglu á svæðið til að skakka leikinn. Heimildarmenn DV úr báðum fylkingum eru sammála um að ástandið á fundinum hafi verið afar eldfimmt og þrúgandi. Eftir hann hafi fólki liðið virkilega illa og fundist erfitt að takast á við átökin. „Sumir upplifðu þetta hreinlega sem ofbeldi, það er bara þannig,“ segir einn.

Lögregla var kölluð til í gær

DV hefur heimildir fyrir því að stuggað hafi verið við fólki, auk þess sem að hljóðnemi hafi verið rifinn af Sigurbjörgu. „Það varð bara að kalla lögregluna á svæðið. Hún var ekki þarna til að úrskurða um eitt eða neitt, heldur til þess að róa fólk niður. Það voru öskur og læti þarna hreinlega.“ Annar segir að það hafi legið við handalögmálum. Um kosninguna hefur Gunnar sjálfur sagt: „Það átti með valdníðslu og bellibrögðum að ganga frá þessu máli.“ En hann telur að framganga sinna stuðningsmanna hafi verið til fyrirmyndar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.