Rukkuð um 4200 krónur þó að sonurinn hafi ekki náð inn í Megatímann

Skjárinn segist reyna að leysa óvenjuleg mál með farsælum hætti

Sonur Helgu Völu reyndi ítrekað að ná inn í Megatímann á SkjáEinum til að hreppa páskaegg.
Sonur Helgu Völu reyndi ítrekað að ná inn í Megatímann á SkjáEinum til að hreppa páskaegg.

„Hann var mjög spældur að komast ekki í gegn en þegar maður nær ekki inn í svona þætti þá á maður ekki von á því að fá 4200 króna rukkun eins og í okkar tilviki,“ segir lögmaðurinn Helga Vala Helgadóttir í samtali við DV.is sem var ekki sátt við símareikning sem henni barst eftir að sonur hennar hafði reynt að ná inn í Megatímann sem var á dagskrá SkjásEins fyrir skemmstu.

Í Megatímanum hringdi fólk inn þáttinn í þeirri von um að hreppa glæsilega vinninga. Ef áhorfendur vildu taka þátt í einni þraut þá borguðu þeir 295 krónur fyrir símtalið en einnig var hægt að velja um að hringja einu sinni fyrir 995 krónur og þá var áhorfandinn tvisvar sinnum með í öllum þrautum.

Í tilviki sonar Helgu Völu reyndi hann ítrekað að vinna til páskaeggs í þættinum. Hann hringdi allt að því látlaust inn en náði aldrei sambandi, ávallt var á tali. Engu að síður voru mæðginin rukkuð um 295 krónur fyrir hvert skipti sem drengurinn hringdi inn.

„Maður sér það á símareikningnum að hann er augljóslega að reyna að ná sambandi því hann hringdi á nokkra sekúndna fresti. Það kom bara á tali. Þá er rukkað þrjú hundruð kall fyrir hvert símtal,“ segir Helga Vala. „Ég sat við hliðina á honum allan tímann. Hann er bara þessi gaur sem hringir í svona leiki og þegar er verið að gefa páskegg þá hringir hann. Hann er alveg þessi gaur sem hringir í Guðna Má Henningsson á RÁS 2 og biður hann um óskalag. Maður borgar ekkert fyrir það nema maður nái í gegn. Hann náði hins vegar ekkert í gegn í Megatímanum. Hann var að reyna að komast í samtal við manninn sem stjórnar þessum þætti til að fá að snúa einhverju lukkuhjóli. Ég er mjög fegin að Rás 2 rukkar ekki fyrir það að biðja um óskalag ef maður nær ekki inn. Þá værum við á hausnum,“ segir Helga Vala.

„Við höfum reynt að leysa öll svona mál þegar við sjáum að það er eitthvað óeðlilegt í gangi,“ segir Hilmar Björnsson, forstöðumaður ljósvakamiðla hjá SkjáEinum, í samtali við DV.is um málið. „Það fer allt í góðgerðamál og það kom fram í þættinum margoft hvað hvert símtal kostaði og þess háttar. Þetta eru tvö þrjú mál sem hafa komið upp þar sem fólk hefur hringt óvenju oft og kannski ekki gert sér grein fyrir því hvað hvert símtal kostar og við höfum bara leyst það á farsælan hátt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.