Lögregla var kölluð til á aðalfund Krossins: „Ofboðslega mikil heift“

„Svo var bara svo mikil spenna á fundinum að þetta var virkilega óþægilegt“

Kalla þurfti til lögreglu á aðalfundi í Krossinum í gærkvöldi eins og sést á meðfylgjandi mynd. DV greindi frá því í gær að uppúr sauð í kjölfar ágreinings um framkvæmd kosninga til forstöðumanns Krossins og fundarstjórnar. Þau sem vilja veita Krossinum forystu eru Gunnar Þorsteinsson, oftast kenndur við Krossinn, og dóttir hans Sigurbjörg Gunnarsdóttir sem er starfandi forstöðumaður Krossins.

„Það var svo ofboðslega mikil heift í fólki,“ segir heimildarmaður DV sem var á svæðinu í gærkvöldi. „Sumir sýndu af sér ógnandi tilburði gagnvart Sigurbjörgu og þetta fór allt úr böndunum,“ segir viðkomandi.

„Fólk var bara á öskrinu. Þess vegna þurfti að kalla til lögreglu til að skakka leikinn. Hún var fljót á svæðið og gat róað mannskapinn. Þá var ákveðið að fresta honum og skipuleggja þetta betur, en þetta er náttúrulega í annað sinn sem þarf að fresta þessu.“

Heimildir DV herma að áður en að um kosningu til forstöðumanns hafi komið hafi lætin verið byrjuð. Ósættið var meðal annars um það hver ætti að vera fundarstjóri og hver ætti að vera ritari, en tilnefndi Sigurbjörg tvo aðila og Gunnar aðra tvo.
„Þetta fór allt í steik síðast og þess vegna átti að reyna að stýra fundinum betur. Þetta var samt rosalegt, það voru margir þarna sem voru ekki í ástandi til að taka þátt. Svo var bara svo mikil spenna á fundinum að þetta var virkilega óþægilegt.“

Eins og fram kom í gær á DV.is vildi Gunnar meina að um ólögleg umboð til að kjósa um fundarstjórnina væri að ræða en einhverjir ætluðu að kjósa Sigurbjörgu fyrir hönd annarra safnaðarmeðlima; í umboði þeirra raunar. Sigurbjörg hafði þau umboð með sér. Þetta vildi Gunnar ekki fallast á og segir að skýrt sé kveðið á um það í lögum safnaðarins að kjósendur þurfi að mæta í eigin persónu til þess að kjósa á safnaðarfundi.

Kosningunum var því frestað en til stendur að fá þriðja aðila, einhvern utan safnaðarins, til þess að meta framkvæmd kosninganna þar sem engin sérstök áfrýjunarnefnd um svona mál er innan safnaðarins. „Sóknarnefnd mun núna taka ákvarðanir um þetta,“ segir heimildarmaður DV.

Sjálfur segir Gunnar á Facebook síðu sinni að hann þakki þeim sem studdu hann í gær. „Ég þakka þeim mikla meirihluta sem studdi mig á aðalfundi í Krossinum í gær og kom í veg fyrir valdníðslu og ólög. Þetta var sögulegur fundur þar sem í ljós kom að menn ganga langt í barbabrellum og ósvinnu til að tryggja hag sinn og þá er lögum og reglu vikið til hliðar. Sá stóri hópur sem vildi veita mér brautargengi var til fyrirmyndar og snerti mig djúpt með stuðningi sínum. Það er afar leitt að vegna ásetnings um svindl í kosningu varð að fresta þessum fundi. Ég trúi því að lög og réttur muni að lokum sigra,“ segir hann.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.