„Hvernig á að skilja þetta öðru­vísi en sem beina hótun um at­vinnu­missi?“

Yfirmaður Agnars, sem stendur að undirskriftasöfnun gegn breytingu veiðigjaldsins, fékk afrit af fundarboði ráðherra - Lögmaður orðlaus

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Mynd: Mynd Framsóknarflokkurinn

Yfirmanni Agnars Kristjáns Þorsteinssonar var sent sérstakt afrit af tölvupósti frá aðstoðarmanni Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þegar Agnar var boðaður á fund. Agnar starfar við Háskóla Íslands og vildi ráðherra ræða við hann um undirskriftasöfnunina sem þeir Ísak Jónsson standa fyrir gegn lækkun og breytingu sérstaka veiðigjaldsins.

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður, fór með tvímenningunum á fundinn og lítur málið mjög alvarlegum augum. „Hvernig á að skilja þetta öðruvísi en sem beina hótun um atvinnumissi?“ spyr Helga.

Helga Vala Helgadóttir lögmaður Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þetta er yfirmaður Agnars, yfirmaður á ríkisstofnun, sem fær tölvupóst um að undirmaður sé kallaður á teppi ráðherra. Þarna er verið að vega að tjáningarfrelsi mannsins og mér þykir það grafalvarlegt mál,“ segir hún og bendir á að sá sem boðaði til fundarins hljóti að hafa þurft að afla sér upplýsinga um hvar Agnar vinnur og hver yfirmaður hans er.

Yfirmaður Agnars er í sumarfríi og kom algjörlega af fjöllum þegar honum barst afrit af bréfinu, enda tengist efni fundariss störfum þeirra við Háskólann ekki á nokkurn hátt.

Agnar Kristján Þorsteinsson Annar af aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar gegn breytingu og lækkun sérstaka veiðigjaldsins.

DV hefur sent aðstoðarmanni ráðherra, Helgu Sigurrósu Valgeirsdóttur, fimm spurningar í tölvupósti vegna málsins og fékk svarbréf með þessum orðum: „Sæll, vísa hér til fréttar ráðuneytisins af fundinum“ ásamt link á almenna fréttatilkynningu um fundinn. Í lok tilkynningarinnar segir: „Einn aðstandenda söfnunarinnar óskaði þess sérstaklega að færð yrðu til bókar mótmæli við hvernig staðið var að boðun hans á fundinn. Fram kom að boðunin hefði borist yfirmanni á vinnustað hans. Ráðuneytið baðst afsökunar á þessu, en að sjálfsögðu var um mistök að ræða.“ Í samtali við DV segir Agnar að hann voni innilega að um mistök hafi verið að ræða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.