„Þetta er líklega versti skatturinn til að lækka“

Jón Steinsson: Engin örvun af völdum lækkunar veiðigjalda

Athygli vekur að engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að vega upp á móti milljarða lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs.
Engar ráðstafanir Athygli vekur að engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að vega upp á móti milljarða lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs.
Mynd: Pressphotos.biz

„Þetta er líklega versti skatturinn til að lækka. Þetta hefur engin örvandi áhrif, nákvæmlega engin,“ segir Jón Steinsson, hagfræðingur og dósent við Columbia-háskólann í Bandaríkjunum, um fyrirhugaða lækkun veiðigjalda. Hann telur lækkunina afar misráðna. Varfærnislegir útreikningar bendi til þess að gjöldin séu langt undir þolmörkum sjávarútvegsfyrirtækja og lækkun þeirra auki hallarekstur ríkissjóðs um marga milljarða að óþörfu. Þá bendir Jón á að aðrar tegundir skatta séu mun vænlegri kostur ef örva á hagkerfið með skattalækkunum. Þar nefnir hann sérstaklega vinnuletjandi skatta á borð við tekjuskatta og neysluskatta.

„Skattar eru háir á Íslandi og það væri mjög gott að geta lækkað til dæmis virðisaukaskattinn eða tekjuskattinn“

Milljarða tekjutap, engar ráðstafanir

Á miðvikudaginn síðastliðinn boðuðu forystumenn ríkisstjórnarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, til blaðamannafundar í Þjóðmenningarhúsinu. Þar greindu þeir frá slæmum horfum á sviði ríkisfjármála og sögðu þær mun verri en áður hefði verið talið. Að óbreyttu yrði hallarekstur ríkissjóðs 30 milljarðar á rekstrargrundvelli ársins 2013 og 9 milljarðar árið 2014. Það kom því mörgum í opna skjöldu þegar ríkisstjórnin lagði fram frumvarp um lækkun veiðigjalda á Alþingi um kvöldið.

Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjutap ríkissjóðs af lækkun veiðigjalda nemi um 3,2 milljörðum á rekstrargrunni ársins 2013 og um 6,4 milljörðum árið 2014. Athygli vekur að engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Þar af leiðandi mun lækkunin auka verulega á hallarekstur ríkissjóðs, þvert á stefnu beggja stjórnarflokka sem lagt hafa ríka áherslu á að koma verði böndum á ríkisfjármálin.

„Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa talað mikið um að staða ríkissjóðs sé slæm og það þarf að gera eitthvað í því, annað hvort að hækka skatta eða lækka útgjöld. En það er svolítið skrítið að á sama tíma og þeir eru að tala um þetta þá taka þeir eina hagkvæmustu tekjulind ríkissjóðs og skera hana niður,“ segir Jón og á þar við veiðigjöldin. „Því langflestar tekjulindir ríkissjóðs eru skattar sem eru vinnuletjandi, tekjuskattar eru vinnuletjandi og virðisaukaskattur.“

Gagnrýnir lækkun veiðigjalda Jón Steinsson segist ekki sjá nein hagfræðileg rök fyrir lækkun veiðigjalds. Hann segir að skynsamlegra hefði verið að hækka veiðigjaldið og lækka skatta sem eru atvinnuletjandi.

Undarleg forgangsröðun, engin örvun

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar við lækkun skatta kemur Jóni á óvart. Hann telur að lækkunin sé ekki til þess fallin að auka hagvöxt í sama mæli og lækkun annarra skatta. „Ég held að þetta hafi engin örvandi áhrif. Og sérstaklega er þetta náttúrulega athyglisvert í ljósi þess að skattar eru háir á Íslandi og það væri mjög gott að geta lækkað til dæmis virðisaukaskattinn eða tekjuskattinn. Ein leið til að gera það væri að vera með hátt auðlindagjald og þá miklu, miklu lægri virðisaukaskatt. Og það væri örvandi. Það væri virkilega örvandi.“

Jón segir að öðru máli gegni um lækkun veiðigjalda. Hún stuðli síður að örvun hagkerfisins. „En auðlindagjöld – ef þau eru rétt útfærð og einungis gjöld á umframhagnað eins og gjaldið er núna – þau hafa engin vinnuletjandi áhrif á útgerðina. Það verða jafnmargir fiskar dregnir úr sjó og jafnmikil verðmæti búin til úr þeim hvort sem að veiðigjaldið er 10 milljarðar eða 30 milljarðar,“ segir Jón og bætir við að veiðigjaldið sé afar lágt í samanburði við umframhagnað sjávarútvegsfyrirtækja. Langstærstur hluti hagnaðarins verði eftir hjá fyrirtækjunum.

„Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut í þessu frumvarpi sem hlífir litlum eða meðalstórum útgerðum“

Nægur hvati til fjárfestinga

Að mati Jóns er ekkert sem bendir til þess að veiðigjaldið í núverandi mynd dragi úr hvata sjávarútvegsfyrirtækja til að ráðast í þær fjárfestingar sem þörf þykir fyrir. „Hagnaðurinn er svo mikill í þessum geira að það eru allir að fullnýta kvótann sinn hvort eð er. Þú veiðir ekkert meiri fisk þó veiðigjaldið sé lækkað. Hagnaðurinn er það mikill nú þegar að það er bara miklu meiri en nógur hvati til að ráðast í allar þær fjárfestingar sem sjávarútvegsfyrirtækin telja sig þurfa. Þau eru nú þegar að fá 8 prósenta arð af því fé sem lagt er í reksturinn og líka þorrann af auðlindarentunni.“

Því gefur Jón lítið fyrir allt tal um að núverandi veiðigjald lami fjárfestingarmátt sjávarútvegsfyrirtækja. „Hvort sem við erum að tala um að gjaldið yrði 13,5 milljarðar eða 10 milljarðar, þá eru útgerðirnar hvort eð er að fá bróðurpartinn af þessu. Þær eru með svo miklu, miklu meira en nógan hvata til að gera allar þær fjárfestingar sem þörf krefur að það er algjörlega út í hött að tala um að það hafi einhver áhrif á fjárfestingu.“

Þetta er kafli úr ítarlegri umfjöllun um lækkun veiðigjalda sem finna má í helgarblaði DV. Áskrifendur geta lesið greinina í heild sinni með því að smella á meira hér að neðan.

Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjutap ríkissjóðs af lækkun veiðigjalda nemi um 3,2 milljörðum á rekstrargrunni ársins 2013 og um 6,4 milljörðum árið 2014. Tekjurnar verða þá 10,3 milljarðar árið 2013 í stað 13,5 milljarða og 9,8 milljarðar árið 2014 í stað 16,2 milljarða.
Mun minni tekjur Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjutap ríkissjóðs af lækkun veiðigjalda nemi um 3,2 milljörðum á rekstrargrunni ársins 2013 og um 6,4 milljörðum árið 2014. Tekjurnar verða þá 10,3 milljarðar árið 2013 í stað 13,5 milljarða og 9,8 milljarðar árið 2014 í stað 16,2 milljarða.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.