Boða milljarða lækkun á veiði­gjaldi og skoða tannlækningar barna

Stjórnin vöruð við því að tekjur ríkisins muni lækka gífurlega með lækkun veiðigjalda

Mynd: Sigtryggur Ari

Á Alþingi í kvöld dreifði Framsóknarflokkurinn frumvarpi um breytingar á veiðgjaldi á útgerðina. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af veiðgjöldum fyrir aflaheimildir verði 3,2 milljörðum lægri á árinu 2013 frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og að tekjurnar geti orðið 6,14 milljörðum lægri á árinu 2014 en áætlað var.

Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið kemur fram að ekki liggi fyrir á þessu stigi aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því gerir ráðuneytið ráð fyrir því að staða ríkissjóðs muni versa sem nemur þessari umtalsverðu tekjulækkun frá því sem áformað var og verði til muna lengri leið að jöfnuði í heildarafkomunni en gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013. Ráðuneytið tekur þó fram að gera má ráð fyrir að tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja í ríkissjóð muni aukast að einhverju marki þar sem veiðigöld eru frádráttarbær rekstarkostnaður.

Þetta frumvarp að breytingu á lögum um veiðigjöld kemur á sama degi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðuðu mun verri stöðu í ríkisfjármálum en talað var um fyrir kosningar. Sögðu þeir heildartekjur ríkisins gætu orðið allt að átta milljarða króna minni en talið var og að það stefni í að útgjöld ríkisins verði 6 milljörðum meiri en búist var við.

Nefndu ráðherrarnir dæmi um ný aukin útgjöld ríkissjóðs og nefndu þar tannlækningar barna sérstaklega og sagði Bjarni Benediktsson í samtali við Ríkisútvarpið að sú þjónusta sé ekki á lista yfir verkefni sem hætta eigi við en hún komi til skoðunar eins og allt annað. Sagði hann þennan þjónustusamning kosta um einn milljarð króna á ársgrundvelli og ekki hafi verið fundnar neinar tekjur til að mæta þeim útgjöldum.

Líkt og fyrr sagði dreifði Framsóknarflokkurinn frumvarpi um breytingu á lögum um veiðigjöld þar sem boðað er að tekjur ríkisins vegna veiðigjalda verði 3,2 milljörðum króna lægra árið 2013 og 6,14 milljörðum lægra árið 2014.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.