Veiðigjald mögulega afnumið strax í sumar

Myndi koma í veg fyrir að útgerðirnar borgi sérstaka veiðigjaldið á næsta fiskveiðiári.

Líkt og kunnugt er hafa þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rætt stjórnarmyndun að undanförnu.
Ræða stjórnarmyndun. Líkt og kunnugt er hafa þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rætt stjórnarmyndun að undanförnu.
Mynd: Pressphotos.biz

Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn íhuga að afnema strax í sumar sérstakt veiðigjald á útgerðirnar. Það myndi koma í veg fyrir að það gildi á næsta fiskveiðiári.

Frá þessu er greint í kvöldfréttum RÚV en þar kveðst fréttastofa hafa heimildir um að að rætt hafi verið um að afnema sérstaka veiðigjaldið í sumar, jafnvel strax um næstu mánaðarmót.

Sérstaka veiðigjaldið nemur samkvæmt lögum Alþingis um veiðigjöld 70 prósentum af auðlindarentu - sérstökum stofni sem ákvarðast af söluverðmæti afla, að frádregnum kostnaði vegna veiða og vinnslu annars vegar og reiknaðri ávöxtun á verðmæti rekstrarfjármuna hins vegar. „Rentan er sá umframarður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni, með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst,“ segir í frumvarpinu um veiðigjaldið.

Rekstrarkostnaður til frádráttar
Úgerðirnar þurfa ekki að greiða neitt gjald af fyrstu 30 þúsund þorskígildiskílóunum og hálft gjald af næstu 70 þúsund þorskígildiskílóum, en fullt gjald eftir það.

Útgerðirnar veiða eðli málsins samkvæmt mis mikið af fiski en togarar HB Granda veiddu rúmlega 51.500 tonn af fiski alls árið 2010. Samkvæmt þessum forsendum myndi útgerðin greiða fullt gjald - sem er 70 prósent af ágóðanum - fyrir 51.400 tonn af fiski, en mætti draga rekstrarkostnað - þar á meðal laun stjórnenda og annarra - og ávöxtun rekstrarfés frá gjaldinu.

Líkt og kunnugt er hafa þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson rætt stjórnarmyndun að undanförnu. Hafa þeir rætt efnahagsmálin og skuldamál heimilanna. Afnám sérstaka veiðigjaldsins var ekki á loforðaskrá flokkanna tveggja en að lækka eða afnema þennan sérstaka skatt á útgerðirnar er í samræmi við fyrri málflutning Bjarna, sem sagði þetta veiðigjald vera „ofurskattlagningu“ í pistli árið 2012.

Ríkissjóður yrði af 10,3 milljörðum
Gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái 10,3 milljarða króna í tekjur af sérstaka veiðigjaldinu á núverandi fiskveiðiári sem nær til 1. september næstkomandi. Samkvæmt áætlun sem forsætisráðuneytið kynnti árið 2012 var gert ráð fyrir að nota 17,1 milljarð króna sem að mestu kæmi af sérstaka veiðigjaldinu á árunum 2013 til 2015 til þess að fjármagna samgöngumannvirki fyrir 7,5 milljarða króna en þar á meðal eru Norðfjarðagöng, sex milljarða króna í rannsóknar og tækniþróunarsjóð og 3,6 milljarða króna í sóknaráætlun landshluta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.