Bara VG er á móti staðgöngumæðrun

Hvað finnst þér?

Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að heimila staðgöngumæðrun á Íslandi?

Sjá niðurstöður

Meirihluti þeirra sem tekið hafa Alþingispróf DV er á því að heimila eigi staðgöngumæðrun á Íslandi. Aðeins um 18 prósent segjast annaðhvort frekar andvíg eða mjög andvíg því að heimila staðgöngumæðrun á meðan 59 prósent segjast frekar hlynnt eða mjög hlynnt. Tuttugu prósent segjast hlutlaus og tvö prósent vilja ekki svara. Tölurnar byggja á svörum þeirra 43.870 sem höfðu svarað Alþingisprófinu á DV.is á mánudagskvöld. Afstaða frambjóðenda er nokkuð svipuð. Meirihluti þeirra 207 frambjóðenda sem höfðu svarað prófinu á sama tíma er hlynntur staðgöngumæðrun. 26 prósent frambjóðendanna segjast vera mjög andvíg eða frekar andvíg á meðan 51 prósent segist mjög hlynnt eða frekar hlynnt. Átján prósent frambjóðenda segjast hlutlaus og fimm prósent vilja ekki svara.

 

Tveir hlutlausir og einn á móti

Ef frambjóðendur hvers flokks fyrir sig eru skoðaðir kemur í ljós að aðeins þrír af þeim tíu flokkum sem tekið höfðu þátt í Alþingisprófinu á mánudag eru ekki hlynntir heimilun staðgöngumæðrunar. Tveir flokkanna eru hlutlausir í málinu. Það eru Dögun og Regnboginn. Samkvæmt svörum frambjóðendanna eru Björt framtíð, Framsóknarflokkurinn, Hægri grænir, Lýðræðisvaktin, Píratar, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn hlynntir staðgöngumæðrun á Íslandi. Vinstri grænir er eini flokkurinn sem mælist andvígur.

Frambjóðendur Vinstri grænna eru þó ekki alveg sammála í afstöðu sinni þó að meirihlutinn sé andvígur staðgöngumæðrun. Átta frambjóðendur segjast frekar andvígir og fjórtán segjast mjög andvígir en tveir segjast frekar hlynntir. Þá eru fimm frambjóðendur hlutlausir og einn vill ekki svara spurningunni. Rétt er að taka fram að enginn flokkur er algjörlega sammála innan sinna raða um hvort heimila eigi staðgöngumæðrun eða ekki.

 

Umræða í þinginu

Algengasta tegund staðgöngumæðrunar er þegar kona fer í glasafrjóvgun þar sem notaðir eru fósturvísar sem eru líffræðilega ekki hennar. Þá eru egg og sæði frá þeim einstaklingum sem koma til með að verða foreldrar barnsins notaðir í glasafrjóvguninni. Lagaramminn á Íslandi heimilar ekki slíkt í dag en dæmi eru um að Íslendingar hafi fengið erlendar staðgöngumæður til að ganga með börnin sín. Ferlið er umdeilt hér á landi.

Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hefur nokkrum sinnum verið rætt um staðgöngumæðrun. Alþingi fól Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra að setja á fót starfshóp til að undirbúa löggjöf um staðgöngumæðrun hér á landi. Í svari sínu við fyrirspurn Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, á þingi í mars sagði Guðbjartur að málið hefði tekið lengri tíma en reiknað var með í ráðuneytinu. Ekkert varð af því að frumvarp um staðgöngumæðrun yrði lagt fram á þinginu og bíður það nýs þings eftir kosningar að taka ákvörðun um hvort slíkt frumvarp verði lagt fram. Miðað við skoðanakannanir og svör frambjóðenda í Alþingisprófinu verður það að teljast líklegt.

Ert þú búin/n að taka Alþingispróf DV? Hér má taka prófið.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.