Mættu með búsáhöldin

„Andstæðingar nýrrar og betri stjórnarskrár eru nálægt því að vinna fullnaðarsigur á loka dögum þingsins“

Mynd: Mynd frá mótmælunum

Hópur fólks var saman kominn á Austurvelli til þess að mótmæla meðferð Alþingis á stjórnarskrárfrumvarpinu. Mótmælin voru, þegar blaðamann bar að garði, ekki mjög fjölmenn en létu þó heyra ágætlega í sér. Barið var á búsáhöld og tóma sælgætisbauka. Þá höfðu nokkrir lögreglumenn tekið sér stöðu fyrir framan þinghúsið til að fylgjast með mótmælendunum.

Boðað var til mótmælanna í dag á Facebook og áttu þau að hefjast klukkan fimm. Í boðinu til þeirra sagði: „Andstæðingar nýrrar og betri stjórnarskrár eru nálægt því að vinna fullnaðarsigur á loka dögum þingsins. Besta ráðið við þessu eru fjöldamótmæli fyrir utan Alþingishúsið.

Samkvæmt fréttum er áætlað að slíta þingi í kvöld eftir samningaviðræður flokksformanna síðustu daga. Í gær bárust fréttir þess efnis að búið væri að semja við Sjálfstæðisflokkinn um nýtt breytingarákvæði í stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir að 42 þingmenn af 63 þurfi til að samþykkja breytingar auk þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem stuðning 40% allra kosningabærra manna þurfi til staðfestingar. Sérfræðingar sem hafa tjáð sig eru á því að svo hár þröskuldur sé banabiti málsins.

Sýnum gamla valdinu að okkur sé ekki sama og fjölmennum á Austurvöll kl. 17:00 í dag, pottar og allt!“

 

Þingfundi var frestað núna rétt fyrir sex til klukkan hálf sjö, en af 21 máli sem var á dagskrá í dag er búið að ræða sextán, þar á meðal annarri umræðu um stjórnskipunarlög.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.