Segir auðlindaákvæði til marks um öfga og sósíalisma

Þingmaður gagnrýnir ákvæði sem hans eigin flokkur samþykkti

Að setja auðlindaákvæði um sjávarútveginn inn í stjórnarskrá er bara liður í að koma á sósíalísku hagkerfi Vinstri grænna, nokkurra Samfylkingarmanna og Stjórnlagaráðs að því er fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, Framsóknarflokki, á Alþingi í dag. Orð hans hafa vakið athygli og ekki síst vegna þess að hans eigin flokkur vildi koma sams konar ákvæði í stjórnarskrá á sínum tíma.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins vorið 2001 var samþykkt að ákvæði verði sett í stjórnarskrá Íslands um að fiskistofnarnir séu sameigninleg auðlind allrar þjóðarinnar og eign hennar. Þingið tekur jafnfram undir þá niðurstöðu auðlindanefndar að greiða beri gjald fyrir afnot af auðlindinni.

Á þetta minnir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrum þingmaður, í kjölfar ummæla Sigurðar Inga á Alþingi í dag en þar sagði þingmaðurinn að slíkt ákvæði myndi kollvarpa hagkerfi Íslands og slíkt færi gegn vilja meirihluta Alþingis og líklega meirihluta þjóðarinnar líka. Það væru hreinar öfgar.

Kristinn H. Gunnarsson sem lengi var þingmaður og formaður þingflokks framsóknarmanna spyr á bloggi sínu hvort hans eigin flokkur hafi því ekki verið sekur um öfgar þegar nákvæmlega sams konar ákvæði hafi verið samþykkt 2001.

„Umrætt auðlindaákvæði kveður á um þjóðareign á náttúrurauðlindum, þar með talið fiskistofnunum við landið, þjóðareign á auðlindum á, í eða undir hafsbotni og lagt er bann við því að framselja úr hendi ríkisins réttindi til þess að virkja vatnsföll, jarðhita, námaréttindi og grunnvatn svo það helsta sé nefnt.  Þetta er væntanlega þjóðnýtingin, sem varaformaðurinn leggst gegn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.