Egill gengur til liðs við Lýðræðisvaktina

Ekki ljóst hvort hann verði sjálfur í framboði

Mynd: © Eyþór Árnason

Tónlistarmaðurinn Egill Ólafsson er genginn til liðs við Lýðræðisvaktina. Þetta staðfestir hann í samtali við DV. „Jú, jú, það er rétt,“ segir Egill. „Ég veit ekki alveg hvernig ég muni gagnast þeim en ég er allavega genginn til liðs og hef sagt sem svo og hugsað sem svo að við erum öll ábyrg fyrir því samfélagi sem við búum í.“

Egill segist genginn til liðs við hreyfinguna þar sem hann vilji leggja sitt af mörkum. „Það er ekki vegna þess að ég held að ég sé svo góður talsmaður einhverra mála, það er bara vegna þess að ég veit það að hver og einn getur mokað með teskeið og ég vil bifa mínu litla hlassi til að mjaka hér einhverskonar betri samræðu um hverskonar samfélag við viljum sjá hér í framtíðinni,“ segir hann.

Enn er ekki ljóst hvort að Egill verði sjálfur í framboði fyrir komandi kosningar. „Ég veit ekki enn. Það er alveg óljóst. Það eru lýðræðislegar reglum  innan þessarar litlu hreyfingar, þar sem að vaktmennirnir skiptast á skoðunum um það hverjir munu standa vaktina,“ segir Egill og bætir við að hann sé fyrst og fremst að leggja sitt á vogaskálarnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.