Þorvaldur Gylfason leiðir Lýðræðisvaktina

Nýr flokkur skal vera breiðfylking fólks úr öllum áttum

„Eina leiðin til að komast að því hvort kjósendur hafa áhuga á þessu er að bjóða þeim upp á þennan kost en ef það kemur í ljós að kjósendur hafa ekki áhuga á þessu þá bara eftir lögmálum lýðræðisins verður það niðurstaðan og við una glöð við það,“ segir Þorvaldur Gylfason, sem í dag var kosinn formaður nýs stjórnmálaafls, Lýðræðisvaktarinnar, sem ætlunin er að bjóði fram í öllum kjördæmum við næstu Alþingiskosningar.

Að baki því framboði segir Þorvaldur um breiðan hóp fólks að ræða en helstu stefnumál flokksins og áherslur verði kynntar á næstu dögum. Með Þorvaldi að nýja flokknum standa meðal annars séra Örn Bárður Jónsson, útvarpsmaðurinn Pétur Gunnlaugsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor og Lýður Árnason læknir. Varaformaður flokksins er Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur.

Þorvaldur segir að í sínum huga verði helstu stefnumið þrjú talsins en ítrekar að flokkurinn verði vettvangur allra sem það vilja. 

„Við viljum að Alþingi virði vilja þjóðarinnar í stjórnarskrármálinu og við viljum stuðla að því á næsta Alþingi að það verði meirihluti fyrir staðfestingu frumvarpsins sem við treystum enn að núverandi Alþingi muni, eins og það hefur lofað, að samþykkja fyrir þinglok og sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru búnir að leggja blessun sína yfir. Í öðru lagi viljum við bjóðast til að hjálpa til við að endursemja þau lög sem þarf að breyta til að þau samrýmist nýrri stjórnarskrá. Þar á ég við kosningalöggjöfina, fiskveiðistjórnarlögin, upplýsingalögin og önnur lög. Í þriðja og síðasta lagi viljum við gjarnan leggja hönd á plóg við að hraða endurreisn Íslands eftir hrun. Því Ísland er orðið eftirbátur Norðurlanda í lífsskjörum og því þarf að linna sem allra fyrst ef við eigum að geta haldið unga fólkinu heima.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.