Tölurnar sögðu til um handveðsetta hluti í bankanum

Misskilningur varðandi meint lán Glitnis til Bjarna Ben

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Útskýringar á innihaldi gagnapakka tengdum Glitni, sem birtist á vefsíðunni Ljóst.is reyndust ónákvæmar og þær ályktanir sem Jónas Kristjánsson, ritstjóri, dró af þeim á bloggi sínu fyrr í kvöld, og DV greindi frá, eru því rangar.

Rangfærslur eru í útskýringu Associate Whistle-Blowing Press á innihaldi listans, en þar stendur ,,gildin er í þúsundum ÍSK. Lína númer 11 vísar í 5 milljaðra króna lán Bjarna Benediktssonar, núverandi fjármálaráða, þrátt fyrir að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis gefi til kynna að hann skuldi 174 milljónir króna.“

Tölurnar sem birtust á hinum meinta lánalista voru hins vegar ekki í þúsundum íslenskra króna, heldur sögðu til um handveðsetta hluti í bankanum. Gögnin sýna því ekki að Bjarni Benediktsson hafi fengið 5 eða 6 milljarða íslenskra króna lán frá Glitni. Tölurnar virðast ekki sýna neitt nýtt um tengsl Bjarna við bankann, heldur einungis staðfesta það sem kemur fram í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Á undanförnum árum hefur DV fjallað ítarlega um tengsl Bjarna við Glitni í kringum hrun.

Jónas Kristjánsson hefur skrifað aðra færslu þar sem hann gerir grein fyrir misskilningnum. Nú segir Jónas ,,Á fésbók er á einum stað haldið fram, að tölurnar á Glitnis-listanum séu ekki skuldalisti, heldur hlutfjárlisti. Þetta séu einingar en ekki þúsundkallar. Raunverulegar skuldir séu ekki nema einn tuttugasti af uppgefnum tölum. Sé svo, þá er framsetning AWP röng.“

Hollenski fréttamiðillinn Nu.nl virðist líka hafa dregið sömu ályktanir af misvísandi framsetningu Associate Whistle-Blowing Press á gögnunum, en frétt hans um gögnin má lesa hér. http://www.nu.nl/economie/3664234/fraude-ijslandse-bank-omvangrijker-dan-gedacht.html.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.