Birgitta ekki á bak við lekasíðu

Ritstjórar lekasíðu gangast við misskilningi á gögnum um hlutafé Bjarna Ben

Birgitta Jónsdóttir segist sammála hugmyndafræðinni á bak við ljost.is en kveðst þó ekki standa á bak við hana persónulega.
Sammála hugmyndafræðinni Birgitta Jónsdóttir segist sammála hugmyndafræðinni á bak við ljost.is en kveðst þó ekki standa á bak við hana persónulega.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það má segja að ég sé guðmóðir þeirrar hugmyndafræði sem er á bak við þessa síðu,“ segir Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata um lekasíðuna ljost.is. Birgitta segist ekki standa á bak við síðuna en hún er listuð á henni á meðal stofnenda hennar, Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, talsmanni síðunnar, og Pedro Noel og Santiago Carrion, sem eru ritstjórar hennar.

„Það er ekki þannig að ég sé að vinna í einhverjum lekum en ég er sammála þeirri hugmyndarfræði sem er þarna á bak við, að það sé til staður á Íslandi þar sem fólk getur treyst því að gögnin sem það sendir sé ekki hægt að rekja til þeirra. Ef þú verður vitni að einhverju sem er siðlaust eða glæpsamlegt þá er þetta miðill sem þú getur notað til þess að koma því á framfæri,“ segir Birgitta.

Samtökin Associated Whistleblowing Press, sem Pedro og Santiago eru aðilar að, eru á bak við síðuna.

Misskilningur

Á síðunni var í gær sagt að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi verið þrettándi stærsti skuldari Glitnis fyrir hrun og að hann hafi skuldað fimm milljarða. Þetta er rangt en í skjalinu sem vísað var til – birt undir yfirskriftinni Loans.pdf – eru tíundaðir handveðsettir hlutir. Gengist er við þessum mistökum í yfirlýsingu frá stofnendum síðunnar.

„Það sem við getum sagt er að þau gögn sem við fengum um Glitni er almennt séð mjög nákvæm og innihalda nákvæmar staðreyndir, sumar hverjar sem við höfum fengið staðfestar hjá heimildarmönnum,“ segir í yfirlýsingu frá ljost.is.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á vefsíðunni ljost.is sagður skulda 5 milljarða fyrir hrun. Var það misskilningur á gögnunum en Bjarni skuldaði 174 milljónir króna samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis.
Sagður skulda 5 milljarða Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var á vefsíðunni ljost.is sagður skulda 5 milljarða fyrir hrun. Var það misskilningur á gögnunum en Bjarni skuldaði 174 milljónir króna samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það varð miskillningur við lesturinn á Loans.pdf, þar sem að handveðsettir hlutir voru sagðir vera íslenskar krónur. Við þökkum þeim blaðamönnum sem komu auga á þetta. […]En eftir sem áður stöndum við við það að fjármálaráðherra hafi verið þrettándi stærsti hluthafi Glitnis fyrir hrun.“ Segir í yfirlýsingunni að ritstjórar síðunnar hafi undir höndum mikið magn af gögnum en aðeins hluti þeirra hafi verið birtur, meðal annars til þess að virða friðhelgi einkalífs sumra aðila sem fram koma í gögnunum. Þess skal getið að Bjarni var langt frá því að vera meðal stærstu hluthafa í Glitni fyrir hrun.

DV hefur áður greint frá hlutabréfum Bjarna í Glitni en hann kvaðst ekki hafa fjármagnað hlutabréfakaupin með lántöku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.