Flestir ásatrúarmenn í Bandaríkjunum

Ásatrúarfélagið hvetur meðlimi til að taka þátt í talningu á heiðingjum heimsins

Hilmar Örn Hilmarsson hefur gengt embætti allsherjargoða frá árinu 2003
Allsherjargoði Hilmar Örn Hilmarsson hefur gengt embætti allsherjargoða frá árinu 2003

Á síðunni Norsemyth.org stendur nú yfir talning á heiðingjum heimsins, flokkað eftir löndum. Ásatrúarfélagið íslenska hefur hvatt meðlimi sína til að taka þátt í könnuninni. Í kynningu á talningunni kemur fram að síðuhaldarar hafi haft samband við heiðin trúfélög víðs vegar um heim allan og beðið þau um að hvetja meðlimi sína til að taka þátt.

Ekki er hægt að segja að talningin sé hávísindaleg þar sem hún er bundin þátttöku hvers og eins heiðingja. Þrátt fyrir það kennir þar ýmissa grasa svo sem að Bandaríkjamenn eru langfjölmennastir meðal heiðingja heimsins. Hafa nú tæplega fimmtán þúsund manns tekið þátt í könnuninni og er tæpur helmingur þeirra Bandaríkjamenn. Þýskaland og Bretland koma svo á eftir Bandaríkjunum í fjölda heiðingja.

Ásatrúarmenn eru rúmlega tvö þúsund talsins hér á landi og er það aðeins dropi í hafi sé litið til heimsins. Árið 2001 áætlaði Borgarháskóli New York að eingöngu í Bandaríkjunum væru um þrjú hundruð og sextíu þúsund ásatrúarmenn.

Þeir sem kenna sig við heiðni geta tekið þátt í talningunni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.