Brotnuðu niður og há­grétu þegar Tony gaf sig fram

Barnshafandi kona hrædd vegna stöðugra lögregluheimsókna - „Lögreglan er farin að áreita fólk út af mér“

Queen, systir Tony Omos, brast í grát þegar hann var handtekinn í dag.
Brast í grát Queen, systir Tony Omos, brast í grát þegar hann var handtekinn í dag.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég vil fara úr felum vegna þess að lögreglan er farin að áreita fólk út af mér,“ segir Tony Omos, hælisleitandi sem farið hefur huldu höfði í þrjár vikur. „Ég vil ekki að mín vandamál bitni á öðru fólki.“ Í dag fór hann með lögmanni sínum í innanríkisráðuneytið og gaf sig fram. Honum fannst viðeigandi að láta handtaka sig þar, enda taldi hann ráðuneytið hafa leikið sig grátt. „Ég skil ekki hvernig ráðuneytið gat gert mér þetta,“ sagði hann við DV í gær og bætti við: „Ég vissi ekki að ráðuneyti í Evrópu beittu sér með þessum hætti.“ Hér vísar hann til trúnaðarbrests ráðuneytisins gagnvart honum og barnsmóður hans, Evelyn Glory Joseph, en hún á von á barni þeirra í janúar. „Ef ég fæ ekki að sjá barnið mitt mun ég sjá eftir því alla ævi,“ sagði hann.

Lögreglan vildi ekki handtaka Tony í innanríkisráðuneytinu. Hún hefur hins vegar gert húsleit hjá þungaðri barnsmóður hans og hótað henni að koma stöðugt heim til hennar þar til Tony Omos gæfi sig fram.
Húsleit lögreglu Lögreglan vildi ekki handtaka Tony í innanríkisráðuneytinu. Hún hefur hins vegar gert húsleit hjá þungaðri barnsmóður hans og hótað henni að koma stöðugt heim til hennar þar til Tony Omos gæfi sig fram.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri kom inn í anddyrið og ræddi við Tony og lögmann hans. Bað hún þá um að fara á lögreglustöðina, enda væri ráðuneytið ekki rétti vettvangurinn. Lögmaður Tonys spurði þá hvort ekki væri eðlilegt að haft yrði samband við lögreglu, enda um eftirlýstan mann að ræða. Ráðuneytisstjóra fannst það þó ekki viðeigandi.

Lögreglan hefur nokkrum sinnum farið heim til Evelyn undanfarna daga og gert húsleit hjá henni. Þá tjáðu lögreglumenn henni að þeir hygðust koma daglega heim til hennar þangað til Tony kæmi í leitirnar. „Þetta er ein helsta ástæðan þess að ég gef mig fram. Þetta er farið að valda henni mikilli streitu og ótta. Það mikilvægasta núna er heilsa hennar og barnsins,“ segir Tony í samtali við DV.

Evelyn Glory Joseph, barnsmóðir Tonys, hágrét eftir að lögreglan sótti hann. Hún á von á sér í janúar.
Evelyn hágrét Evelyn Glory Joseph, barnsmóðir Tonys, hágrét eftir að lögreglan sótti hann. Hún á von á sér í janúar.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Lögreglan hefur gert húsleit hjá fleiri hælisleitendum í leit sinni að Tony. Þá sendi alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sérstaka mynd af Tony á alla fjölmiðla og lýsti eftir honum í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um hann. Því virðist sem leitin að Tony Omos hafi verið býsna umsvifamikil og lögreglan leggi mikið kapp á að handtaka hann. Ráðuneytisstjóri sá þó ekki ástæðu til að hringja í lögreglu þegar Tony sat í anddyri ráðuneytisins. Lögmaður hans hafði því samband en tæplega klukkutími leið án þess að lögregla léti sjá sig. Þá hringdu fleiri, sem viðstaddir voru, og létu lögreglu vita af viðveru eftirlýsts manns.

Tony var yfirvegaður og staðráðinn í að gefa sig fram til að barnsmóðir hans yrði látin í friði.
Yfirvegaður við handtöku Tony var yfirvegaður og staðráðinn í að gefa sig fram til að barnsmóðir hans yrði látin í friði.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar Tony, Evelyn, Queen, systir Tonys, blaðamenn DV og fleiri gengu út úr ráðuneytinu biðu lögregluþjónar nokkrum húsum frá. Tony faðmaði Evelyn og systur sína að sér og gaf sig fram. Hann var leiddur inn í lögreglubílinn og konurnar brustu í grát. Bíllinn keyrði af stað. Blaðamenn og aðrir gengu með konunum upp Sölvhólsgötu og grátur þeirra ágerðist.

DV mun halda áfram að gera málinu ítarleg skil hér á vefnum um helgina. Í helgarblaði DV er að finna viðtal við Tony Omos sem tekið var í gær, fimmtudag. Óttast hann að leki minnisblaðs innanríkisráðuneytisins sem innihélt upplýsingar um að hann hefði sætt rannsókn vegna mansalsmáls geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hann í heimalandinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og aðstoðarmenn hennar hafa gefið loðin svör um leka minnisblaðs ráðuneytisins til fjölmiðla.
Loðin svör Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og aðstoðarmenn hennar hafa gefið loðin svör um leka minnisblaðs ráðuneytisins til fjölmiðla.

Það eitt að vera grunaður um glæp getur haft í för með sér áralanga fangelsisvist í Nígeríu. Meira en helmingur fanga þar í landi hefur aldrei verið leiddur fyrir dómstóla að því er fram kemur í gögnum á vef Amnesty International. Aðstæður í fangelsum landsins eru hörmulegar en tæplega þúsund fangar týndu þar lífi á fyrri helmingi þessa árs. Þá tíðkast dauðarefsingar í Nígeríu.

Fréttir íslenskra fjölmiðla, sumar þeirra á ensku, hafa að undanförnu ratað til fólks í Nígeríu. „Ég hef fengið skilaboð frá fólki í Nígeríu sem hefur frétt að ég hafi verið grunaður um aðild að mansali á Íslandi,“ segir Tony sem óttast að verði málið ekki til lykta leitt fyrir íslenskum dómstólum bíði hans grimmileg fangelsisvist í heimalandinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.