„Flugvallarhlauparar björguðu lífi mínu“

Paul Ramses og Rosemary Atieno hafa vanist því að vera utangátta

Paul Ramses og Rosemary Atieno búa í Vallarhverfinu í Hafnarfirði ásamt tveimur börnum sínum, þeim Fídel Smára og Rebekku Chelsea.
Sameinuð fjölskylda Paul Ramses og Rosemary Atieno búa í Vallarhverfinu í Hafnarfirði ásamt tveimur börnum sínum, þeim Fídel Smára og Rebekku Chelsea.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Lesendur DV kannast eflaust margir við Keníamanninn Paul Ramses Odour sem tekinn var með lögregluvaldi frá eiginkonu sinni og nýfæddu barni í Reykjavík á sumarmánuðum 2008. Ramses var sendur til Ítalíu án þess þó að umsókn hans um hæli hefði nokkurn tímann verið tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi. Brottvísun hans úr landinu vakti sterk viðbrögð. Flugvallahlaupararnir svokölluðu, þeir Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade, vöktu athygli á málinu þegar þeir brutu sér leið inn á Keflavíkurflugvöll og stöðvuðu tímabundið flugvélina sem Ramses átti að fara með til Ítalíu. Þá stóð Hörður Torfason fyrir fjöldamótmælum fyrir utan skrifstofur dómsmálaráðuneytisins þar sem þess var krafist að fjölskyldan yrði sameinuð á ný.

Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði í fjölmiðlum að málið væri í „hefðbundnu ferli“. Fjölmörgum ofbauð hins vegar framganga Útlendingastofnunar í málinu, þeirra á meðal Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, sem sagði harðneskjulegt að tvístra fjölskyldu Ramses með valdi. Þá krafðist hún svara frá dómsmálaráðherra, og bað ráðuneytið um að rökstyðja ákvörðun sína. Mannréttindasamtökin Amnesty International tóku í sama streng og hvöttu yfirvöld til þess að endurskoða ákvörðun sína. Dómsmálaráðuneytið lét á endanum undan þrýstingi, brottvísun Ramses var dregin til baka, og honum gert kleift að koma aftur til landsins eftir mánaða vist í flóttamannabúðum á Ítalíu.

Umsókn þeirra Paul Ramses og Rosemary Atieno var tekin fyrir hér á landi og árið 2010 var þeim loks veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hjónin eru afar þakklát öllum þeim sem létu sig málið varða og nefna Hauk og Jason sérstaklega í þeim efnum, sem og lögfræðing sinn á þeim tíma, Katrínu Theódórsdóttur, og Hörð Torfason og Ingibjörgu Sólrúnu. Þau búa í lítilli íbúð í Vallarhverfi í Hafnarfirði ásamt börnum sínum tveimur, þeim Fídel Smára og Rebekku Chelsea. Blaðamaður heimsótti fjölskylduna og fékk að heyra hvað á daga þeirra hefur drifið. Ramses starfar í dag sem hreingerningamaður en lætur sig dreyma um að þjálfa krakka í fótbolta, íþróttinni sem hann stundaði svo mikið sjálfur á sínum yngri árum í Kenía. Rosemary segist afar þakklát fyrir það að börnin hennar fái tækifæri til þess að vera í leikskóla.

„Þeir voru að berjast fyrir réttlæti og mér fannst þeir vera með ljónshjörtu“

Ramses leynir ekki þakklæti sínu gagnvart þeim Jason og Hauki sem hlupu inn á flugvöllinn á sínum tíma, en hann hefur aldrei tjáð sig um atvikið opinberlega. „Það var alveg hreint magnað hvað þessir strákar gerðu og þessi aðgerð þeirra snerti mig í hjartastað. Þeir tóku frumkvæði að því að klifra yfir girðinguna og trufla flugumferð til þess að vekja athygli á málinu. Þeir voru að berjast fyrir réttlæti og mér fannst þeir vera með ljónshjörtu, vegna þess að á þessum tíma virtist enginn nenna að hlusta. Þannig að ég hef alltaf verið þeim mjög þakklátur fyrir að hafa staðið fyrir það sem þeir töldu rétt,“ segir Ramses og heldur áfram: „Flugvallarhlaupararnir björguðu lífi mínu.“ Hann segir aðgerð þeirra hafa vakið upp þá vakningu sem varð um málið í kjölfarið. Þá segir hann líka áhugavert að hugsa til þess að Haukur og Jason hafi ekki þekkt hann neitt þegar þeir gripu til þessa ráðs, heldur hafi þeir einungis fylgt réttlætiskennd sinni. Þess má geta að Haukur og Jason voru síðar dæmdir í fjársektir fyrir „glæp“ sinn.

Ítarlegt viðtal við Paul Ramses og Rosemary Atieno má lesa í helgarblaði DV

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.