Tekinn frá óléttri konu og sendur úr landi

„Það eina sem ég vil er að hann nái að sjá barnið sitt“

Evelyn Glory Joseph var í mikilli geðshræringu þegar blaðamaður og ljósmyndari hittu hana fyrir utan bráðamóttöku Landspítalans.  Hún segist ekki vita hvað hún eigi að gera.
Óvissa og ótti Evelyn Glory Joseph var í mikilli geðshræringu þegar blaðamaður og ljósmyndari hittu hana fyrir utan bráðamóttöku Landspítalans. Hún segist ekki vita hvað hún eigi að gera.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það eina sem ég vil er að hann nái að sjá barnið sitt,“ segir Evelyn Glory Joseph, hælisleitandi frá Nígeríu, í samtali við DV. Evelyn, sem á von á barni í janúar, er í mikilli geðshræringu vegna þeirrar ákvörðunar Útlendingastofnunar að vísa kærasta hennar og barnsföður úr landi á morgun. „Hann er faðir barnsins míns,“ segir Evelyn. Lögreglan leitar mannsins nú, en hann er einnig frá Nígeríu, heitir Tony Omos, og hefur leitað hælis hér á landi. DV náði ekki í lögfræðing mannsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Reykjanesbær hafði samband við lögmanninn Katrínu Oddsdóttur, fyrir hönd Evelyn, um klukkan hálf sex í dag þar sem hún náði ekki sambandi við lögmann Tonys. „Hún hafði samband við mig og var augljóslega mikið niðri fyrir,“ segir Katrín og bætir við að fulltrúum Innanríkisráðuneytisins, Útlendingastofnunar og lögreglunnar hafi verið gert ljóst hver staðan væri: „Ég varð við ósk hennar um að senda upplýsingar á fulltrúa Innanríkisráðuenytisins, Útlendingastofnunar og lögreglu, um að sá sem til stæði að vísa úr landi, væri barnsfaðir hennar,“ segir Katrín samtali við DV.

„Hvað get ég gert?“

Eins og gefur að skilja er Evelyn í miklu áfalli vegna brottvísunar Tonys úr landi. Hún segist hafa hrunið andlega þegar hún heyrði fréttirnar fyrr í dag: „Við fáum engan tíma til að áfrýja eða tala við lögmann eða neitt, það á bara að senda hann úr landi á morgun.“ Hún hafði samband við starfsfólk hjá félagsþjónustu Reykjanesbæjar, sem sér um málefni hælisleitenda, og bað um aðstoð. Starfsfólkið þar ákvað að fara með hana beinustu leið á bráðamóttöku Landspítalans. „Þeir hafa áhyggjur af því að ég fari mér að voða en ég veit ekkert hvað ég á að gera, hvað get ég gert?“

Blaðamaður og ljósmyndari DV hittu Evelyn fyrir utan bráðamóttökuna en hún sagðist vilja segja sögu sína í þeirri daufu von að brottvísuninni verði frestað þangað til Tony hefur séð barnið sitt. „Ég er búinn að segja þeim að hann sé faðir barnsins míns en enginn virðist hafa áhuga á því að hlusta,“ segir Evelyn. Hún spyr hvort ekki sé hægt að fresta ákvörðuninni, „að minnsta kosti þannig að Tony geti fengið tækiæri til þess að sjá barnið okkar?“

Lögreglumenn leituðu að Tony á heimili hælisleitenda fyrr í dag.
Löggan leitar Lögreglumenn leituðu að Tony á heimili hælisleitenda fyrr í dag.
Mynd: © Eyþór Árnason

Fer huldu höfði

Blaðamaður og ljósmyndari DV urðu vitni að því fyrr í dag þegar þrír lögreglumenn, einn þeirra óeinkennisklæddur, gengu út úr húsnæði hælisleitenda í Reykjavík. Blaðamaður hefur rætt við íbúa hússins sem staðfesta að lögreglan hafi verið að leita að barnsföður Evelyn. Hún hefur sjálf reynt að hringja í Tony í kvöld en án árangurs. Svo virðist sem hann fari huldu höfði einhversstaðar í borginni af ótta við handtöku. „Mér líður hræðilega,“ segir Evelyn en lögreglan hefur í kvöld hringt í hana og spurt hvar Tony sé niðurkominn. „Þeir voru að hringja og spyrja mig hvar hann væri, ég veit það ekki, ég veit ekki neitt.“

Evelyn og Tony eru bæði frá Nígeríu en þau kynntust hér á landi. Umsókn þeirra um hæli hefur verið í ferli hjá Útlendingastofnun í meira en ár. „Ég hef verið hérna í ár og þrjá mánuði en hann í næstum því tvö ár,“ segir Evelyn. Að sögn hennar á að senda Tony til Sviss á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar sem kveður á um að vísa megi fólki aftur til þess lands sem það kom fyrst til í Evrópu. „Ég vil bara að hann fái að sjá barnið sitt,“ segir Evelyn.

Evelyn spyr hvort ekki mega fresta ákvörðuninni, að minnsta kosti þannig að Tony fái tækifæri til þess að sjá barnið þeirra.
Biður um frest Evelyn spyr hvort ekki mega fresta ákvörðuninni, að minnsta kosti þannig að Tony fái tækifæri til þess að sjá barnið þeirra.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Barnasáttmálinn lögfestur

Þeir lögfræðingar sem DV hefur rætt við vegna málsins benda á að Ísland hafi lögfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. febrúar á þessu ári. Í 9. grein sáttmálans segir: „Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera dvalarstaður þess.“

Frásögn Evelyn minnir á sögu Paul Ramses sem tekinn var frá tuttugu daga gömlum syni sínum og eiginkonu árið 2008. Málið vakti gríðarlega athygli og sagði þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, meðal annars að það væri „harðneskjulegt að tvístra“ fjölskyldu Ramses með þessum hætti. Sú ákvörðun Útlendingastofnunar var síðar dregin til baka eftir mikinn þrýsting grasrótarhópa og annarra sem létu sig málið varða.

DV hefur að undanförnu fjallað mikið um stöðu hælisleitenda á Íslandi. Þannig sagði blaðið frá því í síðustu viku að 93,5 prósent hælisleitenda hefði verið synjað um hæli hér á landi það sem af er ári. Þannig fengu einungis 6,5 prósent viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn, eða dvalarleyfi af mannúðarásætðum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.