„Að leigja út leg kvenna í þróunar­löndum er nýtt heims­met í öfgum ný­lendu­stefnunnar“

Segir staðgöngumæðrun óréttlætanlega

Mynd: Reuters

„Nýlendutímabilinu lauk að nafninu til um það leyti sem Járntjaldið féll og flest ríki heimsins höfðu fengu sjálfstæði frá vestrænum nýlenduþjóðum. Þrátt fyrir þetta er ekkert lát á misnotkun ríkari landa í Evrópu og Norður-Ameríku á borgurum annars staðar í heiminum. Að leigja út leg kvenna í þróunarlöndum er nýtt heimsmet í öfgum nýlendustefnunnar. Okkur nægðu ekki lönd, auðlindir, mannauður, tækifæri til verðmætasköpunar — við þurfum líka að stjórna kynfærum kvenna.“

Þetta segir Kári Emil Helgason í harðorðri grein um staðgöngumæðrun á femíníska vefritinu Knúz.is. Í grein Kára kemur fram að fyrir nokkrum árum hafi hann verið mjög hlynntur staðgöngumæðrun. Sem samkynhneigður maður hefði hann fagnað möguleikanum á að eignast blóðskyld börn með „hýpóþetískum eiginmanni.“ Nú hafi hann hns vegar skipt um skoðun.

„Konur fara ekki út í að leigja leg sitt af því þær langar til þess. Konur gera það af því þær vantar peninga eða af því fjölskyldu þeirra vantar peninga. Íslendingar sem halda til Indlands í leit að konu með leg til leigu hafa engar forsendur til að þekkja bakgrunn hennar eða vita hvort hún standi í þessu af fúsum og frjálsum vilja. Stór hluti kvenna á Indlandi kann ekki að lesa og hefur ekki gengið í skóla,“ skrifar Kári og bætir við:

Mynd: Reuters

„Eiga þá hinir væstrænu ættleiðingarforeldrar ásamt lögfræðingum sínum að ákveða allt ofantalið saman? Fyrir hana? Sem er kannski einstæð móðir? Eða er í þeirri stöðu að maki hennar eða fjölskylda er að neyða hana til að gera þetta? Staðgöngumæðrun er allt of flókin, og málin of viðkvæm, til að hægt sé að leysa þau með nefndavinnu eða lagasetningum. Ég reyni ekki einu sinni að svara þeim spurningum sem hér eru lagðar fram því þær eru ekki mínar að svara. Staðgöngumæðrun á að vera bönnuð, og þá sérstaklega sú tegund sem felur í sér útleigu á líkömum fyrir peningagreiðslur. Fólk sem getur ekki eignast börn af líffræðilegum ástæðum þarf að ættleiða eða finna aðrar leiðir til að auðga líf sitt. Kaup, sala, útleiga og leiga á fólki er aldrei réttlætanleg.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.