Þeir tekjuhæstu fá mesta lækkun

Mesti ávinningurinn vegna lækkunar tekjuskatts samt aðeins 3.984 krónur

Samkvæmt útreikningum sem RÚV lét gera fyrir sig mun mesti ávinningur af fyrirhugaðri lækkun á tekjuskatt í fjárlagafrumvarpinu 3.984 krónur á mánuði fyrir fólk með 770 þúsund krónur í laun.
Rýnt í tölurnar Samkvæmt útreikningum sem RÚV lét gera fyrir sig mun mesti ávinningur af fyrirhugaðri lækkun á tekjuskatt í fjárlagafrumvarpinu 3.984 krónur á mánuði fyrir fólk með 770 þúsund krónur í laun.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það verða hinir tekjuhæstu sem njóta góðs af lækkun tekjuskatts sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014 en tekjuskattgreiðslur þeirra sem hafa 250 þúsund krónur eða minna í laun á mánuði standa í stað. Mesti ávinningur einstaklinga vegna fyrirhugaðrar lækkunar verður þó ekki nema 3.984 krónur hjá þeim sem eru með 770 þúsund krónur eða meira í mánaðarlaun.

Þetta kemur fram í útreikningum á því hvernig skattbyrðin breytist með lækkuðu skatthlutfalli í miðþrepi tekjuskattsins sem birtir eru á vef Ríkisútvarpsins í dag.

Í fjárlagafrumvarpinu er greint frá því að skatthlutfallið í miðþrepi tekjuskattsins lækki um 0,8 prósent úr 25,8 prósentum í 25 prósent. Þetta miðþrep nær til mánaðartekna á bilinu 241.476 til 739.509 krónum. Í útreikningum sem RÚV lét vinna fyrir sig kemur fram að miðað sé við að fólk greiði fjögurra prósenta iðgjald í lífeyrissjóð en ekkert í viðbótalífeyri.

Í töflu sem birt er með frétt RÚV sést að hjá einstaklingi með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun lækka skattar um 372 krónur á mánuði, rúmlega 4.400 krónur á ári.

Einstaklingi með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun um 1.140, hjá einstaklingi með 500 þúsund krónur um 1.980 krónur á mánuði og svo koll af kolli. Mesta lækkunin er hjá þeim tekjuhæstu í úttektinni, 3.984 krónur á mánuði.

Í fjárlagafrumvarpinu voru þessar breytingar kynntar undir yfirskriftinni „Ráðstöfunartekjur heimilanna.“ Þar kemur fram að samanlagt gætu þessar breytingar á tekjuskatti, auk annarra breytinga eins og fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti af bleyjum aukið kaupmátt ráðstöfunartekna um 0,5-0,6 prósent. Áhrif fjárlagafrumvarpsins í heild á kaupmátt ráðstöfunartekna eru sögð til aukningar um 0,3 prósent, að teknu tilliti til verðlagsuppfærslu á krónutöluskatti og gjöld.

Hér má sjá nánar um málið á vef RÚV.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.