Bjarni blæs skuldaleiðréttingar Framsóknar af borðinu

Ummæli Bjarna í þinginu í síðustu viku taka af öll tvímæli

Orð Bjarna eru afar skýr og fara þvert gegn stærsta kosningaloforði Framsóknarflokksins.
,,Ekki" Orð Bjarna eru afar skýr og fara þvert gegn stærsta kosningaloforði Framsóknarflokksins.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Bjarni Benediktsson sagði á Alþingi í síðustu viku að ríkisstjórnin myndi ekki horfa til þess að nota fjármuni kröfuhafa föllnu bankanna til að lækka verðtryggðar skuldir íslenskra heimila. Fjármálaráðherrann hefur ekki áður verið svo afdráttarlaus í tali um þetta helsta deiluefni ríkisstjórnarflokkanna. Orðrétt sagði Bjarni á Alþingi þann 17. október: ,,Í því sambandi verður ekki horft til þess svigrúms sem þarf að vera til staðar vegna skuldavanda heimilanna."

Orð Bjarna féllu í umræðum á Alþingi um samninga við erlenda kröfuhafa. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði þá við Bjarna: ,,Er það af hálfu fjármála- og efnhagsráðherra skilyrði fyrir því að undanþága verði veitt til þrotabúanna að í tillögum þeirra felis svigrúm sem nægir til þess að lækka verðtryggð lán heimilanna um 15-20 %, sem nemur verðbólguskotinu hér á árunum fyrir, án þess að það leiði til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs?"

Þessari spurningu svaraði Bjarni með þeim orðum að við skuldalækkunina yrði ,,ekki" farin sú leið að nota fjármuni erlendu kröfuhafanna: ,,Virðulegi forseti. Eins og menn muna frá kosningabaráttunni fyrr á þessu ári voru uppi hugmyndir um margvíslegar leiðir til að ná því markmiði að lækka höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna. Það þarf ekki eingöngu að gerast með einhvers konar samkomulagi eins og hv. þingmaður er að vísa hér til við kröfuhafa vegna afnáms hafta. Það sem skiptir máli varðandi afnám haftanna er að greiðslujöfnuði Íslendinga gagnvart útlöndum sé ekki ógnað þegar upp er staðið. Í því sambandi verður ekki horft til þess svigrúms sem þarf að vera til staðar vegna skuldavanda heimilanna."

Þessi orð Bjarna er ekki hægt að túlka með öðrum hætti en að í viðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna um hvernig eigi að ljúka uppgjöri þrotabúanna og gera þeim kleift að koma fjármagni sínu frá Íslandi, þrátt fyrir að hér ríki gjaldeyrisshöft, verði eitt af skilyrðunum í þeim samningum ,,ekki" að hluti þessara fjármuna verði notaðir til að lækka verðtryggðar skuldir íslenskra heimila. Þetta var samt stærsta kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Nú hefur Bjarni talað hreint út: Þessi leið við skuldaniðurfellingar verður ,,ekki" farin. Áður hefur Bjarni talað um þessar hugmyndir sem ,,vangaveltur", sagt að hugmyndunum verði ekki hrint í framkvæmd á þessu ári og svo framvegis. Þessi orð Bjarna eru hins vegar alveg skýr: Hann neitar því að kosingaloforðinu verði hrint í framkvæmd.

Þar að auki er áhugavert að benda á að Bjarni talar um ,,margvíslegar" leiðir við skuldaleiðréttingar en ekki bara leið Framsóknar enda var Bjarni ekki sammála henni og hefur ekki verið frá kosningunum í vor. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heldur ekki fullyrt að fara eigi leið Framsóknar við skuldaniðurfellingar - nota fé erlendra kröfuhafa til þess. Bjarni er því ekki að fara á bak orða sinna þó vitanlega rími það sem hann segir ekki við loforð Framsóknarflokksins.

Samskipti Helga Hjörvars og Bjarna Benediktssonar í heild sinni má lesa hér fyrir neðan:

Helgi Hjörvar: ,Virðulegur forseti. Við erum sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að þetta sé ákaflega alvarlegt mál og mikilvægt að menn tali skýrt. Ég skal því endurorða spurninguna: Er það af hálfu fjármála- og efnahagsráðherra skilyrði fyrir því að undanþága verði veitt til þrotabúanna að í tillögum þeirra felist svigrúm sem nægir til þess að lækka verðtryggð lán heimilanna um 15–20%, sem nemur verðbólguskotinu hér á árunum fyrir hrun, án þess að það leiði til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs? Má fólk vænta tillagna ríkisstjórnarinnar — ef ekki núna fyrir jól þá hvenær og snúast þær um að lækka verðtryggð lán íslenskra heimila um 15–20% eða er ríkisstjórnin með eitthvað allt annað á borðinu?
Það er mikilvægt að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra tali skýrt í þessu efni því að það varðar fjármál tugþúsunda heimila í landinu."

Svar Bjarna Benediktssonar: ,,Virðulegi forseti. Eins og menn muna frá kosningabaráttunni fyrr á þessu ári voru uppi hugmyndir um margvíslegar leiðir til að ná því markmiði að lækka höfuðstól verðtryggðra lána heimilanna. Það þarf ekki eingöngu að gerast með einhvers konar samkomulagi eins og hv. þingmaður er að vísa hér til við kröfuhafa vegna afnáms hafta. Það sem skiptir máli varðandi afnám haftanna er að greiðslujöfnuði Íslendinga gagnvart útlöndum sé ekki ógnað þegar upp er staðið. Í því sambandi verður ekki horft til þess svigrúms sem þarf að vera til staðar vegna skuldavanda heimilanna. Það verður fyrst og fremst horft til þess hvað er raunhæft að við Íslendingar getum aflað í gjaldeyri til þess að standa undir þegar útgefnum skuldbindingum og öðrum skuldbindingum sem leiða af hruni fjármálakerfisins og eru ástæðan fyrir höftunum.
Við skulum hafa það í huga að ef höftin væru ekki til staðar yrðu íslenskar krónueignir þrotabúanna (Forseti hringir.) og annarra þeirra sem eiga slíkar eignir á Íslandi miklum mun verðminni vegna falls krónunnar á markaði."

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.