María heppin að vera hvít

Stjórnvöld aðhöfðust ekkert þegar 502 sígaunabörn voru seld í þrældóm

„María er afskaplega heppin. Annað litarhaft - sem ekki þykir eins aðlaðandi - og önnur trúarbrögð, hefðu sett strik í reikninginn. Væri hún af afrísku eða asísku bergi brotin en ekki með svipgerð Evrópubúa, er ólíklegt að jafn margir hefðu áhyggjur af afdrifum hennar og ólíklegt að hún fengi ný náttföt. Henni hefði öllu heldur verið kastað í fangabúðir, rétt eins og öðrum börnum sem grísk stjórnvöld líta ekki á sem Grikki og hverra líffræðilegu foreldrar finnast ekki.“

Þetta kemur fram í pistli eftir Mhairi McAlpine sem birtist á veftímaritinu Council House og hefur farið eins og eldur í sinu um netheima í dag. Þar er mál Maríu, stúlkunnar sem fannst hjá Róma-fólki í Grikklandi og talið er að hafi verið rænt frá líffræðilegum foreldrum sínum, sett í samhengi við kerfisbundinn rasisma í Grikklandi. Parið sem hafði umsjón með Mariu hefur verið handtekið og kært fyrir mannrán og rannsakar lögreglan nú hvort stúlkan geti verið fórnarlamb mansals.

Stjórnvöld koma hrottalega fram við Róma-fólk í Grikklandi.
Stjórnvöld koma hrottalega fram við Róma-fólk í Grikklandi.

Í fyrrnefndum pistli er fullyrt að fjölmiðlar og lesendur þeirra víðast hvar í heiminum hafi þegar fellt dóm gegn Róma-parinu sem María fannst hjá. Stúlkunni hljóti jú að hafa verið rænt af vondum sígaunum sem læðist inn til fólks að nóttu til og nemi börn þess á brott. „Þrátt fyrir gífuryrði í fréttatímum hef ég ekki enn séð nein gögn sem benda til þess að barnið hafi verið beitt ofbeldi, misnotað eða selt í vændi,“ skrifar greinarhöfundur. Þá rifjar hún upp glæp sem framinn var í Grikklandi fyrir um það bil 10 árum þegar fimmhundruð Róma-börn hurfu af munaðarleysingjahæli í Aþenu. Stjórnvöld aðhöfðust ekkert í fyrstu og rannsókn á málinu hófst ekki fyrr en Evrópusambandið krafðist rannsóknar.

Mynd: Reuters

Í skýrslu sem grísk stjórnvöld sendu Evrópuráðinu kemur fram að allt bendi til þess að börnin hafi verið seld út af hælinu til að unnt væri að misnota þau, annaðhvort með því að selja þau í vændi eða selja úr þeim líffæri. „Róma-börn sem voru í umsjá og undir vernd grískra yfirvalda á grískri stofnun voru seld mannræningjum. Ekki eitt barn eða tvö börn, heldur hundruð barna. Gríska ríkið rannsakaði mannshvörfin ekki fyrr en Evrópusambandið krafðist þess. Af þeim 502 sem hurfu fundust aðeins fjögur og málið var látið niður falla,“ segir Mhairi McAlpine sem gagnrýnir stjórnvöld fyrir að notfæra sér tilvik á borð við fundinn á Maríu til að breiða yfir eigin vanrækslu og gera Róma-fólk að blórabögglum fyrir það sem miður fer í landinu. „Það er hægt að notfæra sér sögur af litlum hvítum fallegum stúlkum til að breiða yfir ógrynnin öll af myrkraverkum,“ segir í lok greinarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.