Sögð hafa horft ítrekað hjá kynferðisbrotum Karls Vignis

Forstöðukona Bergmáls aðhafðist ekkert þrátt fyrir vitneskju um eitthvað misjafnt

Mynd: (c) Joe Mikos

Forstöðukona líknarfélagsins Bergmál þar sem Karl Vignir Þorsteinsson starfaði um tíma leiddi ítrekað hjá sér kvartanir þess efnis að börn hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu Karls og brást reið við öllum sem til hennar leituðu.

Svo var fullyrt í Kastljósi RÚV í kvöld en Karl Vignir Þorsteinsson sem játað hefur að hafa misnotað 50 börn hið minnsta kynferðislega um 50 ára skeið starfaði um tíma fyrir líknarfélagið Bergmál.

Forstöðumaður Bergmáls þann tíma var Kolbrún Karlsdóttir sem sögð er hafa virt kvartanir og ábendingar um brot Karls að vettugi og brugðist reið við slíkum ábendingum. Minnst tvívegis reyndu fórnarlömb Karls að vekja athygli hennar á gjörðum Karls án árangurs.

María Björk Haraldsdóttir, ein þeirra sem varð fyrir barðinu á Karli á þeim tíma, segir að „einn eða fleiri“ starfsmenn Bergmáls hafi trúað öllu góðu um Karl Vignir og neitað að trúa öðru.

„Mér hefur skilist að einn eða fleiri sem réðu í þessum félagsskap hafi trúað öllu sem Vignir sagði. Vignir hefur þennan hæfileika, að geta talað sig inn á fólk. Hann er lítill og hann er ljótur.“

Sjálf vísar Kolbrún þeim ásökunum alfarið á bug og segir þessar fullyrðingar fórnarlambanna tóma lygi.

Karl Vignir starfaði hjá Bergmáli allt þar til DV greindi frá brotum Karls Vignis árið 2007.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.