Kalt og með kalsár en áfram gengur hún þó

Vilborg Arna nálgast Suðurpólinn hægt og bítandi

Pólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir nálgast markmið sitt hægt og bítandi en hún hefur nú gengið í 45 daga á Suðurskautinu. Gangi áætlanir hennar eftir gæti hún náð Suðurpólnum rétt eftir helgina.

Samkvæmt dagbók Vilborgar reyndist gærdagurinn nokkuð erfiður eins og raunin hefur verið síðustu daga. Mjög kalt er í veðri og lítið hefur sést til sólar og er hún komin með kalsár á lærin eftir alla gönguna. Ferð hennar gengur hægar nú en áður sökum þess að hún fer um sprungusvæði og þarf að gæta sín sérstaklega vel.

Upphafleg áætlun hennar gerði ráð fyrir að hún næði pólnum á 50 dögum og hún er því komin langleiðina þó hún hafi reyndar ekki náð að ganga jafn hratt og hún vildi alla ferðina. Ekki er þó fráleitt að ætla að hún nái markmiði sínu á þriðju- eða miðvikudag í næstu viku ef ekkert kemur upp á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.