Eiríkur: „Nú er ég loks frjáls maður“

Eiríkur bjargaði lífi í sumar

Eiríkur Guðberg Guðmundsson, einn af þeim sem Gísli Hjartarson braut gegn, hefur unnið vel úr sínum málum og starfar sem sjómaður í dag. Á síðasta ári komst hann aftur í fréttirnar þegar hann bjargaði félaga sínum úr sjónum eftir að hann fór útbyrðis með veiðarfærum. Minnstu munaði að annar skipverji færi líka í sjóinn en hann flæktist einnig í netinu. Eiríkur náði að losa hann áður en netið fór útbyrðis og bjargaði því tveimur mannslífum.

Foreldrar Eiríks velta því fyrir sér í dag af hverju þeir sem virtust hafa heyrt af háttsemi Gísla þögðu um það en samkvæmt heimildum DV  gekk lengi orðrómur um að Gísli hneigðist til ungra drengja. Fullorðinn maður að vestan segir að fyrsta sagan hafi farið á kreik í kringum 1970. Þá hafi Gísli verið sakaður um að hafa brotið gegn drukknum strák. Þessi orðrómur var þó aldrei neitt annað og meira en orðrómur og ekkert var sannað á Gísla. „Seinna heyrðum við að það hefðu margir vitað af þessu og ég velti því fyrir mér af hverju enginn sagði neitt. Af hverju það varaði okkur enginn við þegar strákurinn fór að vera hjá honum. Þegar frá leið pökkuðum við þessu ofan í tösku, en við læstum henni aldrei því við vissum að þetta var ekki búið. Þetta er að koma aftur núna,“ sagði Stefán Torfi Sigurðsson, stjúpfaðir Eiríks. 

Eiríki er létt yfir því að hafa loks stigið fram og sagt sögu sína opinberlega. Í sjö ár hefur þetta mál hvílt þungt á honum og hann þakkar fyrir stuðninginn sem hann hefur fengið eftir að hann steig fram. „Það var gott að fá loks viðurkenningu á því sem gerðist. Það er búið að hvíla þungt á mér í sjö ár. Nú er ég loks frjáls maður,“ segir hann. Í Kastljósinu hvatti Eiríkur önnur fórnarlömb kynferðisofbeldis til að stíga fram. „Ég vil að fólk vakni. Hætti að halda að þetta sé einhver skömm,“ sagði hann og bætti einnig við: „Þetta er bara ofbeldi og fólk á að tala um þetta.“

  

Ítalarlega úttekt má finna í miðvikudagsblaði DV

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.