Ögmundur íhugar að refsa fólki fyrir að eiga klám

Unnið að frum­varpi sem á að sporna við klám­væðingu

Mynd: © Bragi Þór Jósefsson

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra undirbýr nú lagafrumvarp sem ætlað er að sporna við klámvæðingu og hefur hann falið refsiréttarnefnd vinnslu frumvarpsins. Frá þessu var greint á Smugunni í dag.

Málið var tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun en í minnisblaði innanríkisráðherra segir að til standi að „þrengja og skerpa“ skilgreiningu á klámi. Þá kemur einnig til greina að varsla klámefnis verði bönnuð.

„Ný skilgreining skal taka mið af ákvæði norskra hegningarlaga og lagt er sérstaklega til að refsiréttarnefnd fjalli um hvort ástæða sé til að bann nái einnig til vörslu kláms líkt og á við um klámefni sem sýnir misnotkun á börnum.“

Klámsíðum verði lokað

Samkvæmt minnisblaðinu vill ráðherra að stofnaður verði starfshópur sem fara á yfir hvernig tryggja megi lögreglu lagaleg úrræði til að loka á dreifingu klámefnis, meðal annars á erlendum vefsíðum.

„Hópnum er gert að taka til sérstakrar skoðunar möguleg úrræði sem heimila lögreglu að knýja eiganda, hýsingaraðila eða fjarskiptafyrirtæki til að loka á dreifingu efnis, þ.m.t. efnis sem hýst er erlendis og/eða hýsingaraðili er óþekktur.“

Á vefsíðu Smugunnar er tekið fram að þessi vinna byggi á tillögum undirbúningshóps þriggja ráðuneyta um hvernig sporna megi við klámvæðingu. Fjallaði hópurinn meðal annars um klám út frá lagalegu, heilbrigðislegu og samfélagslegu sjónarhorni og hvert hlutverk stjórnvalda skyldi vera í þessum efnum.

Skiptar skoðanir á Facebook

Miklar umræður hafa vaknað um málið á Facebook. Þar segir Ingimar Karl Helgason, frambjóðandi Vinstri grænna í Reykjavík, framtakið merkilegt og að sama skapi mikilvægt en Eva Hauksdóttir telur að málið muni gera út um vonir Vinstri grænna til að sitja í næstu ríkisstjórn.

Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri Samtaka kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og fyrrverandi formaður Frjálshyggjufélagsins, tengir málið við kynhvöt vinstri manna og spyr: „Er ekki næsta skrefið að stofna Klámstofu, þar sem steingeltir vinstrimenn fá einungis vinnu?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.