Vilborg komin af Suðurpólnum

Hópsins beið kampavín og hátíðarkvöldverður

Vilborg Arna Gissurardóttir var sótt í gær á Suðurpólinn og heldur sig nú í Union Glacier Camp-tjaldbúðunum á Suðurskautslandi. Þær eru starfræktar af ALE (Antarctic Logistics and Expeditions). Fram kemur á vefsíðu Vilborgar, lifsspor.is, að veðrið hafi verið ansi slæmt á Suðurpólnum og að hópurinn hafi verið heppinn að komast þaðan í gær. Ef þau hefðu ekki komist í gær þá hefðu þau kannski getað orðið veðurteppt á pólnum í einhverja daga.

Flugið tók um 5 og hálfan tíma og var Vilborg samferða nokkrum pólförum frá Suður-Afríku sem voru nýloknir við 10 daga leiðangur. Þeirra beið hátíðarkvöldverður og kampavín í tjaldbúðunum. Vilborg bíður nú þess að komast með næsta flugi til Chile en búist er við henni til Íslands eftir um viku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.