„Það má ekki anda á toppana í löggunni“

Lögreglumenn færðir til í starfi fyrir minni sakir en þrjár barnaníðskærur

Mynd: © Eyþór Árnason

Samkvæmt heimildum DV innan lögreglunnar hafa lögreglumenn verið færðir til í starfi eða vikið tímabundið frá störfum fyrir mun minni sakir en þær að sæta rannsókn vegna kæru fyrir barnaníð. DV greindi á miðvikudaginn frá máli lögregluvarðstjóra á höfuðborgarsvæðinu sem hefur fengið að starfa áfram þrátt fyrir að hafa í þrígang verið kærður fyrir barnaníð.

Móðir einnar stúlkunnar sem segir hann hafa brotið gegn sér þegar hún var gestkomandi í sumarbústað, 9 ára gömul, telur rannsókn málsins hafa verið mjög ábótavant og finnst það óásættanlegt með öllu að maðurinn hafi fengið að starfa áfram. Tvær kærur á hendur manninum voru felldar niður í október á síðasta ári en sú þriðja síðastliðinn fimmtudag.

Segir góð tengsl hafa áhrif

Að sögn heimildarmanns er bakgrunnur þeirra manna sem færðir eru til í starfi eða settir af tímabundið yfirleitt sá að þeir séu ekki nógu „hlýðnir“ eins og hann orðar það. „Það má ekki anda á toppana í löggunni þá eru menn settir til hliðar.“ Hann vill meina að góð tengsl lögreglumanna við yfirmenn sína geti haft áhrif á meðhöndlun mála þegar eitthvað kemur upp á.

Þess ber að geta að með í áðurnefndri bústaðarferð, sem stúlkan segir lögreglumanninn hafa brotið á sér í, var félagi hans sem er hátt settur embættismaður. Má draga af því þá ályktun að lögreglumaðurinn sé vel tengdur. Embættismaðurinn var jafnframt eitt aðalvitna í kærumálinu gegn honum. 

Í frétt Rúv.is í gærkvöldi kom fram að frá árinu 1999 hafi ríkislögreglustjóri veitt 12 lögreglumönnum lausn frá embætti um stundarsakir eða að fullu, byggt á rannsóknargögnum mála.

Tengdar fréttir:

„Þetta er rosaleg sorg“

Töluðu um hver yrði fyrri til að sofa hjá konunni sinni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.