Magakveisa raskar lokaspretti Vilborgar

Ætlar að hrista pestina fljótt af sér fyrir síðustu 55 kílómetrana

Suðurpólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir þurfti að liggja fyrir í tjaldi sínu í allan gærdag vegna magakveisu sem hún fékk nóttina áður. Byrjaði hún að kasta upp aðfaranótt mánudags en veikindin þýða að áætlanir hennar með að ná á pólinn í dag eða á morgun raskast.

Vilborg Arna er nú aðeins 55 kílómetrum frá pólnum og heldur ótrauð áfram þrátt fyrir ýmis vandamál á síðustu dögum. Hefur hún verið að glíma við lítilsháttar kal á læri, mikinn kulda og mótvind ásamt mjög erfiðu færi þar sem nýsnævi og háir rifskaflar hafa tafið fyrir för hennar.

„Ég næ mér af þessu fljótt og vel,“ skrifar Vilborg á vefsíðu sína Lífsspor.is. „Ég hlakka til að klára og koma svo heim.“

 

Eins og fram hefur komið er Vilborg Arna fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn á Suðurpólinn en hún er að safna áheitum fyrir Líf, styrktarfélag Kvennadeildar Landspítalans.

Öllu fé sem safnast verður varið til uppbyggingar á aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur á kvenlækningadeild, deild 21A, á Landspítalanum. 

Heita má á Vilborgu með því að hringja í síma 908 1515 og dragast þá 1500 kr af símreikningi eða með frjálsum framlögum inná heimasíðu hennar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.