„Það þarf að slá þær reglulega“

Tekin fyrir á íslenskri vefsíðu, þar sem talað er fyrir kynjamisrétti

„Ég hef blendnar tilfinningar yfir þessu. Þetta er náttúrulega langt yfir strikið - það er lína þarna og núna er maðurinn kominn langt yfir línuna,“  segir Þórlaug Ágústsdóttir stjórnmálafræðingur, sem nýlega var tekin fyrir á Facebook síðu sem talar fyrir kynjamisrétti, undir þeim formerkjum að um umdeildan húmor sé að ræða.

Sá sem stendur fyrir síðunni notaði myndvinnsluforrit til þess að teikna áverka á Þórlaugu og birti myndina undir yfirskriftinni: „Konur eru eins og gras, það þarf að slá þær reglulega.“

Á síðunni ber að líta fjöldann allan af viðlíka fullyrðingum og hefur stjórnandi síðunnar áður birt myndir af fólki, sem hann breytti  á svipaðan hátt. Í einu tilfellinu var saklaus maður sagður vera nauðgari, mynd af honum með þeirri yfirskrift var birt. Sú mynd var fjarlægð en síðan sjálf er enn starfrækt. 

Hefur margsinnis verið tilkynnt

Þórlaug segir í samtali við DV að með því að birta svona níð sé viðkomandi að sýna fram á fáránleika eigin afstöðu. „Með því að fara svona langt yfir strikið hefur hann sýnt fram á fáránleika málsins og afstöðunnar. Hann sem ætlaði að níða konur er nú farinn að framleiða jafnréttissinna,“ segir Þórlaug og bendir á að konur þurfi oft að sitja undir svona á netinu: „Þetta sýnir það sem stelpur ganga í gegnum á netinu dags daglega.“

Myndin var birt á sunnudaginn og hefur margsinnis verið tilkynnt til Facebook. Meðal annars hefur Þórlaug farið tvisvar sinnum fram á að hún verði fjarlægð en ekki hefur samskiptamiðillinn orðið við því. Hún kveðst þekkja til að minnstu þrjátíu annarra sem hafi tilkynnt síðuna til Facebook.

Forsaga málsins er sú að Þórlaug rökræddi við manninn á síðunni. Hún leit nokkrum sinnum inn á síðuna og kom fram athugasemdum þar. Það varð til þess að viðkomandi tók hana fyrir á þennan hátt. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.