Lára Kristín: „Saga um fordóma, saga um útilokun, saga um ofbeldi“

Gefur Landspítalanum leyfi til að fjalla um mál sitt

„Þegar ég óskaði eftir greiningu árið 2012 þá var ég töluð frá því. Það var rætt um að ég væri að fiska eftir einhverju sem væri ekki í boði, og að ég væri komin á þann aldur að greiningin skipti ekki máli. Ég var að ganga inn í svarthol heilbrigðiskerfisins,“ skrifar Lára Kristín Brynjólfsdóttir, en hún var síðastliðið sumar greind með dæmigerða einhverfu. Lára Kristín Brynjólfsdóttir sem var í viðtali í DV á dögunum þar sem hún greindi meðal annars frá margra mánaða nauðungarvistun á geðdeild Landspítalans, en hún var margoft ranglega greind með geðsjúkdóma. Hún hefur nú fengið löggilda greiningu; dæmigerða einhverfu.

„Ég hef verið ranglega lokuð inni á spítala í samanlagt 1 ár, ég hef fengið alvarlega rangar lyfjagjafir og meðferðir – vegna þess að Landspítali veit varla hvað einhverfa er. – Einhverfur einstaklingur í verulega miklu uppnámi líkist oft fólki í alvarlegu geðrænu ástandi,“ segir Lára Kristín.

Lára segir að enginn á Landspítalanum sérhæfi sig í einhverfu fullorðna. „Eftir að ég fékk greininguna mína þá kom í ljós mikið kunnáttuleysi – starfsfólk var orðið hrætt við mig. Það hafði ekki þekkingu til þess að hlúa að einhverfu fólki svo ég var útilokuð eins og flestir sem ég þekki í einhverfuhópnum. Það er enginn sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur né læknir sem sérhæfir sig í einhverfu á geðdeild Landspítala. Bugl sér um unga einhverfa fólkið okkar en eftir 18 ára aldur þá kemur gat í kerfið,“ segir hún. Hún vill meina að mikilvægt sé fyrir spítalann að ráða starfsfólk eða mennta það til þess að sinna þessum hópi fólks sem Lára segir að þjáist vegna vanþekkingar heilbrigðisyfirvalda.

„Með þessum orðum langar mig að skora á Landspítala að svara nokkrum spurningum hér á síðu DV svo almenningur geti lesið. Ég gef leyfi fyrir því að Landspítali tali opinberlega um mína sjúkrasögu því það er ekki vandræðalegt fyrir mig verði þau skjöl birt heldur Landspítalann sjálfan. Þar eru rangar greiningar, saga um alvarlega rangar lyfjagjafir, saga um fordóma, saga um útilokun, saga um ofbeldi og ólöglega valdníðslu,“ segir Lára, en í aðsendri grein hennar má lesa spurningarnar í heild sinni.

Hér má nálgast greinina

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.